144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þrátt fyrir að ýmis teikn séu á lofti um að hér sé allt að fara að ganga betur í ríkisfjármálunum á Íslandi sé jafnframt að koma í ljós að það tekur langan tíma fyrir okkur að vinna okkur út úr kreppunni og það reynist erfitt, líka af því að það reynir á þolinmæðina.

Ég tek undir þau orð hv. þm. Guðbjarts Hannessonar þar sem hann segir að hæstv. ríkisstjórn hygli þeim sem betur hafa það og það á kostnað þeirra sem lakari kjörin hafa meðal annars með því að framlengja ekki auðlegðarskattinn. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann deili áhyggjum mínum um það hvert íslenskt samfélag er að stefna þar sem í fjárlagafrumvarpinu má sjá hvernig hæstv. ríkisstjórn er að leggja grunninn að því í rauninni að auka hér stéttaskiptingu. Hún gerir það með veikingu á velferðarkerfinu, á samneyslunni með hækkun virðisaukaskatts á mat og menningu, þannig að matvæli og hvers konar menning, hvort sem það eru bækur eða tónlist, verður dýrara og hins vegar með því að afnema sykurskatt og gera þar með lakari matvöru ódýrari. Tekur hv. þingmaður undir áhyggjur mínar að þetta muni leiða til aukinnar stéttaskiptingar þar sem við munum annars vegar hafa lágtekjufólk, öryrkja, atvinnuleitendur og aðra tekjulága hópa sem sitja eftir og geta í rauninni ekki tekið þátt í samfélaginu sem hér er verið að móta fyrir hina sem betur hafa það? Kannski svolítið í anda títtnefndrar brauðmolakenningar?