144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:00]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja alveg eins og er og hef reynt að koma því að í báðum mínum ræðum sem ég hef flutt varðandi fjárlögin að ég hef áhyggjur af stefnuleysi ríkisstjórnarinnar. Kannski er það vegna þess að það er innbyggt í mann að trúa að allir vilji vel og menn vilji bæta samfélagið, ég efast eiginlega ekkert um það að í hjarta sínu vilji allir þingmenn gera það. En hvernig það svo birtist með ólíkum aðferðum vekur mér ugg. Eitt af því er þessi — ég veit ekki hvort á að kalla það stéttaskiptingu, en alla vega mikla skiptingu á milli fólks og mikinn ójöfnuð sem birtist meðal annars í þessu frumvarpi. Það er alveg augljóst að núverandi ríkisstjórn hefur talið að fyrrverandi ríkisstjórn hafi gert eiginlega einum of mikið fyrir þá sem minnst höfðu, sem er alls kostar rangt, og svo ég segi það nú bara sem aðili að þeirri ríkisstjórn þá gerðum við engan veginn nóg. En núverandi ríkisstjórn taldi það nú ekki vera hópinn sem ætti að gera mikið meira fyrir, heldur ætti að fara að snúa sér að öðrum sem höfð var sérstök samúð með, þ.e. útgerðaraðilarnir og þeir sem áttu góðar og stórar eignir. Ég er algjörlega ósammála þessu.

Það er margt annað sem við getum nefnt, og af því að hv. þingmaður nefnir matarskattinn og svo sykurskattinn, hvernig á maður að lesa það út þegar maður hefur stefnuyfirlýsingu sem leggur sérstaka áherslu á lýðheilsu, sett er á laggirnar ráðherranefnd um lýðheilsu og annar starfshópur undir stjórn hæstv. heilbrigðisráðherra, en svo er byrjað á því að lækka sykurvörur, þar með gosdrykki og annað, á sama tíma og menn hækka almenna matvöru, þar með ávexti og grænmeti. Það er þetta sem er vandamálið þegar maður glímir við alla þessa umræðu. Við erum annars vegar með falleg orð en hins vegar með ótrúlega skrýtna framkvæmd. Það birtist í svo fjölda, fjölda mörgu. Ekki skortir á að núverandi ríkisstjórn tali fyrir menningu en hún hækkar síðan skatta á þá sömu menningu. Og hún talar um einföldun (Forseti hringir.) en ekki hefur það tekist vel. Verið er að flækja skattkerfið ef eitthvað er með þeim breytingum sem verið er að gera núna.