144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:03]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fljótu bragði væri hægt að segja ef við ættum að lýsa því í fáum orðum hvernig íslenskt samfélag þyrfti að vera þá vil ég horfa til norræna módelsins í sinni hreinustu mynd, sem er mikil samneysla, samfélagsleg ábyrgð, öflugt heilbrigðiskerfi og menntakerfi, sem á ábyrgð okkar allra er rekið sameiginlega, tryggir jafnan aðgang, jafnrétti til þess að sækja þjónustu og búsetu óháð efnahag. Allt eru þetta falleg orð, en ef við höfum þau sem markmið þá vitum við hvert við erum að fara. Það þýðir líka öflugt félagslegt kerfi þar sem við tökum ábyrgð á því að allir einstaklingar í samfélaginu geti bjargað sér og njóti jafnræðis óháð hugsanlegri fötlun, meiðslum, slysum eða öðru slíku.

Ég held að þetta sé það sem við þurfum að glíma við. Í orði tala menn svona. En svo mætir maður hér — ég labbaði yfir Austurvöll í hádeginu og þá kom til mín aðili og sagði: „Geturðu ekki séð það, Guðbjartur“, sagði viðkomandi, „hvað er verið að gera hér? Það er meira og minna verið að undirbúa það að leggja í rúst bæði menntakerfið og heilbrigðiskerfið til þess (Forseti hringir.) að koma hér á einkavæðingu.“ Hvað segja menn við þessu? Er þetta virkilega svona? Ég vil ekki trúa því, en því verða stjórnarliðar (Forseti hringir.) að svara.