144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:25]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svolítið forvitnilegt, og kannski er það illkvittnislegt, að lesa upp úr stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir gerði umhverfismálin að umræðuefni. Það kemur á óvart að hún skuli vera að kvarta yfir þeim miðað við stefnu núverandi ríkisstjórnar, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun vinna að því að Ísland verði í fararbroddi í umhverfismálum á heimsvísu og öðrum þjóðum fyrirmynd á sviði umhverfisverndar.“

Ég ætla ekki að lesa meira. Það má að vísu skilja á næstu köflum að það eigi að vera svo sjálfhverf umhverfisvernd að við ætlum að gera það sér fyrir okkur og innan lands og komi heildaráhrifin ekkert við. Þá geta menn væntanlega flutt ræðurnar um að við séum með hagkvæma orkugjafa í stóriðju okkar o.s.frv. Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns um þetta.

Í öðru lagi eru það aðgerðaáætlanirnar og stefnan sem við höfum fylgt. Við erum með ný lög, eins og um Ríkisútvarpið, við erum með ný lög eða þingsályktanir um þróunarsamvinnu. Öllu þessu er hent. Við erum með mikla vinnu í húsnæðismálum þar sem nú er búið að eyða einu og hálfu ári í að komast að því að tillögur fyrri ríkisstjórnar eru nothæfar. Nú þarf að fara að vinna að því að koma þeim í framkvæmd.

Eitt nefndi hv. þingmaður sem er græna hagkerfið. Ég verð að viðurkenna að mér líður stundum þannig, og kannski var það svo í byrjun, að hæstv. ríkisstjórn, hv. þingmenn hafi ekki skilið hugtakið. Kannski segir það allt sem hv. þingmaður vitnaði í, orð hæstv. forsætisráðherra „fátt er grænna en torfbær“, sem lýsir þeim skilningi sem liggur á bak við hugmyndina um græna hagkerfið. Hluti af því var hvernig við endurreisum atvinnulíf okkar með það að markmiði að nálgast það með sjálfbærni og svo það, eins og hér hefur komið fram, að við sköpum hagsæld án þess að ganga á auðlindir til framtíðar.