144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:28]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins fyrst um græna hagkerfið. Þetta er auðvitað risavaxið mál og snýst um það hvernig við getum endurskilgreint efnahagsstefnu okkar út frá þessum grænu hvötum, til að mynda eins og kemur fram í þingsályktuninni sem samþykkt var, að varúðarreglan sé óaðskiljanlegur hluti af efnahags- og atvinnustefnu stjórnvalda. Þetta samþykktum við, allir þingmenn hér, að varúðarreglan yrði óaðskiljanlegur hluti af efnahags- og atvinnustefnu stjórnvalda. Síðan þegar skipt er um ríkisstjórn fara menn skyndilega að efast um varúðarregluna, meira að segja í náttúruverndarlögum af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. Þess vegna var gildistöku þeirra frestað enn og aftur.

Ég held að þessi nýja hugsun í græna hagkerfinu hafi kannski ekki skilist nægjanlega vel, en hún snýst einmitt um það að vera framsækin í því hvernig við getum endurskilgreint atvinnustefnu. Þá kem ég að því sem hv. þingmaður nefndi í upphafi ræðu sinnar, sem er náttúru- og umhverfisvernd í okkar nánasta umhverfi og ekki í hinu hnattræna umhverfi. Ég sé raunar heldur ekki merki um það að hún sé til staðar þegar við fáum mjög dularfullar tillögur um að henda sjö virkjunarkostum, sem verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur ekki fjallað um, inni í breytingartillögu við tillögu hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um einn virkjunarkost. Mér finnst þetta ekki vera til marks um mjög fagleg vinnubrögð í nánasta umhverfi okkar.

Sá kafli sem hv. þingmaður las upp í upphafi heyrist mér vera úr stefnuyfirlýsingu eða stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar og ég fæ ekki séð að það standi steinn yfir steini þegar tillöguflutningur ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans er skoðaður í þeim efnum. Það stendur ekki steinn yfir steini ef við berum það upp af því sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum.

Hv. þingmaður nefndi síðan samþykktar þingsályktanir og ég vil bæta við þá upptalningu samþykkt um þingsályktun um rammaáætlun og lögunum um rammaáætlun. Mér er mjög til efs að tillagan sem ég vitnaði til hér áðan beinlínis standist þau lög.