144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og vil segja að ég fagna því sem hann sagði í upphafi um þróunarsamvinnu. Ég tel hins vegar að við getum ekki alltaf beðið eftir því að staða okkar verði nægilega góð, því hvenær verður hún nægjanlega góð? Þess vegna nefndi ég Bretland sem gekk í gegnum mikla kreppu en tekur samt þá ákvörðun að fara alla leið upp í 0,7%. Við Íslendingar erum í 0,22% og erum fyrir ofan Bretland á lista OECD yfir lífskjör og lífsgæði þjóða. Þá finnst mér að við hljótum að þurfa að velta fyrir okkur: Getum við virkilega ekki gert betur en þetta þegar kemur að þróunarsamvinnu? Og hvað ætlum við að bíða lengi eftir því að staðan verði nægjanlega góð til að við getum tekið það skref? Ég held að það sem gerðist í umræðum á breska þinginu var að menn sögðu: Við getum ekki beðið eftir því. Þá bíðum við að eilífu. Nú er bara að hrökkva eða stökkva.

Hvað varðar kvótakerfið, þ.e. kvóta á losun koldíoxíðs, þá hafa Íslendingar auðvitað tekið þátt í því kerfi í gegnum tilskipun innan EES-samningsins. Ég get sagt það hins vegar hér að ég er ekki sannfærð um þetta kerfi, það leysir ekki öll þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Það er byggt á ákveðinni markaðshugsun sem væri gaman að vita hvað hv. þingmanni finnst um. Ég tel að það hafi ekki skilað nægjanlega miklum árangri í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ég held að þar geti stjórnvöld lagt meira af mörkum í verki, til að mynda með eflingu rannsókna og nýsköpunar því ég hef mikla trú á því að nýjungar og nýsköpun geti hjálpað okkur mjög til að draga t.d. úr orkunotkun.

Þegar kemur að virkjanaspurningunni þá veit hv. þingmaður alveg hvert mitt svar er við henni. Ég tel ekki að Íslendingar eigi að ráðast í virkjanir til þess að leysa úr orkuþörf heimsins. Hún er miklu stærri spurning en svo. Við þurfum að horfa á það hvernig við getum leyst þetta hnattræna vandamál með (Forseti hringir.) staðbundnari hætti þannig að hver og einn geti haldið áfram að nýta endurnýjanlega orkugjafa. Við eigum að leggja okkar af mörkum með þekkingu okkar, tækni og nýsköpun í þeim geira.