144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef heyrt hjá hv. þingmanni undanfarið nokkuð oft að það hafi orðið hrun á Íslandi og dálítil vandræði í sambandi við það. Við erum fyrst núna að komast yfir núllið í fjárlögum þannig að ég held að við getum kannski beðið í eitt eða tvö ár þangað til við náum því markmiði sem að er stefnt, 0,7% í þróunarsamvinnu.

Virkjanir og framlag Íslands. Nú er það þannig að meginhluti orku heimsins er framleiddur með brennslu jarðefna, kola, gass og olíu, sem er afskaplega mengandi. Þannig að ég skil ekki almennilega að hv. þingmaður vilji ekki nota þá hreinu orku sem við Íslendingar búum yfir til þess að leggja okkar skerf til þess að minnka slíka orkuframleiðslu annars staðar, að við leggjum það fram sem okkar er. Það er reyndar lítið, en ef hver einasti borgari í heiminum mundi hugsa þannig að það sem hann geti lagt fram af mörkum sé svo óskaplega lítið í samanburði við allan heiminn þá mundi ekkert gerast. Það er alveg ljóst.

Ég bind miklar vonir við kvóta á kolefnislosun. Það er markaðslausn sem er ætluð til þess að refsa þeim sem valda mikilli mengun og hvetja þá áfram sem koma í veg fyrir mengun eins og með ræktun á skógum og slíku. Ég spyr því hv. þingmann aftur hvort hún sé þá ekki hrifin af svona markaðslausnum.

Svo er það læsi barna. Nú var hv. þingmaður hæstv. menntamálaráðherra á síðasta kjörtímabili. Við stöndum frammi fyrir því að varlega áætlað séu 20% barna illa læs. Það eru skelfileg örlög fyrir einn einstakling að kunna ekki að lesa vegna þess að það hindrar hann í öllu frekara námi. Öllu. Hann lærir ekkert stærðfræði eða sögu eða heimspeki eða hvað það nú er ef hann kann ekki að lesa.