144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla í þessari ræðu minni að fara yfir breytingartillögur minni hlutans í fjárlaganefnd. Ég hafði ekki tíma til þess að fara yfir þær tillögur í ræðu minni í upphafi umræðunnar.

Fyrsta breyting á sundurliðun 2 á einmitt við græna hagkerfið sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir fór svo ágætlega yfir áðan. Ég hef svo sem ekki miklu við það að bæta en þeim 50 tillögum, sem voru samþykktar hér samhljóða, var ekki raðað í forgangsröð. Á síðasta kjörtímabili var ákveðið að taka tillögu af þessum lista sem laut að ívilnun til þeirra sem kaupa vistvænni bíla. Það var sett inn með fjárlagafrumvarpinu árið 2013. Það er því hægt að stuðla að bættum lifnaðarháttum og lífskjörum í framhaldinu ef við förum yfir tillögurnar og gerum þær að veruleika. Það var þverpólitísk nefnd sem vann þetta og væri þess vegna rík ástæða til þess að hafa það framarlega á forgangslistanum.

Við leggjum til í minni hlutanum að græna hagkerfið fái sérstakan lið og 70 millj. kr. verði varið í þau verkefni á árinu 2015. Við leggjum reyndar til að nafninu á lið sem ber nafnið Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl., verði breytt í Verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl., og að við fáum nýjan lið sem ber heitir Græna hagkerfið. Það gerir þetta gegnsærra og sýnir áhersluna á græna hagkerfið, því að auðvitað er það ekki eins og hæstv. forsætisráðherra hefur haldið fram í ræðum, að græna hagkerfið eigi að snúast um uppbyggingu á torfbæjum, eins og hann fór yfir fyrr á þessu þingi.

Það er önnur tillaga upp á 40 millj. kr. sem lýtur að húsnæðisframlagi til Listaháskóla Íslands. Listaháskólinn hefur verið í vandræðum hvað húsnæði varðar og engum fjárframlögum var varið í frumvarpinu til þessa liðar, en það er mjög mikilvægt. 40 milljónir eru ekki einu sinni nægilegar en þó er það eitthvað til þess að mæta þeim vanda sem Listaháskólinn býr við hvað húsnæði varðar. Því hefur reyndar verið haldið fram að húsnæðið sé heilsuspillandi. Það eru því framkvæmdir sem þarf að fara í til þess að laga húsnæðið.

Fimmta breytingartillagan við sundurliðun 2 frá minni hlutanum er til háskólastarfsemi. Þar er lagt til að 100 millj. kr. verði varið í samstarfsnetið. Samstarfsnetið hefur dugað háskólunum, ríkisháskólunum vel til að vinna saman. Það hefur skapað rými fyrir hagræðingu og ýmislegt annað og stuðlað að aukinni samvinnu opinberu háskólanna. 150 millj. kr. voru í fjárlögum 2013 til þess að reka þetta samstarfsnet. Það var skorið niður í 75 milljónir í fjárlögum 2014 og núna var því algjörlega hent út. Minni hlutinn leggur til að þessu samstarfsneti verði haldið við, enda má færa rök fyrir því að það skipti máli og spari jafnvel pening þegar til lengdar er litið.

Síðan er það ein af þeim mjög svo alvarlegu stefnumarkandi ákvörðunum sem eru birtar í fjárlagafrumvarpinu án nokkurrar umræðu, það er tillagan um fjöldatakamarkanir í framhaldsskóla. Minni hlutinn vill ekki að sú aðgerð nái fram að ganga og kemur með þá tillögu að 500 millj. kr. verði varið til framhaldsskólanna til að sjá til þess að framhaldsskólinn sé enn þá opinn fyrir 25 ára og eldri sem vilja fara í bóknám. Þetta eru 522 ársnemendur, þetta eru 522 nemendur í fullu námi. Einstaklingarnir eru fleiri, þeir eru um 1.650 ef ég man töluna rétt. Ég fékk svar við þessari spurningu núna í október, nei, ég sendi hana í september en svarið kom ekki fyrr en í byrjun desember, en svarið er komið og þar er nákvæmlega tilgreint hvað ársnemendurnir eru margir. Virðulegur forseti, það má vera að ég fari með rangt með dagsetningar en það er ekki aðalmálið í þessu heldur að við vitum að í október 2014 voru 522 ársnemendur 25 ára og eldri í framhaldsskólakerfinu í heild.

Í tillögunum í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að enginn þeirra verði í skólanum, ef maður horfir á tölurnar. Það er gert ráð fyrir 2,5% náttúrulegri fækkun og minni aðsókn og því er skipt jafnt á framhaldsskólana alla. Síðan er gert ráð fyrir að það fjölgi um 130 nemendur í starfsnámi og að þessir 522 ársnemendur, sem eru bóknámsnemendur í framhaldsskólakerfinu, haldi ekki áfram. Það fylgir hins vegar skilaboðum frá menntamálaráðuneytinu að framhaldsskólunum sé ekki meinað að taka þessa nemendur inn, en þeir fá greinilega ekki borgað fyrir þá. Ef skólarnir eru komnir með sína ársnemendatölu og bæta þessum nemendum við fá þeir ekki borgað fyrir það. En þeir mega taka þá inn og fylla upp í hópa.

Ég hef miklar áhyggjur af þessu. Við viljum auðvitað að allir íbúar landsins hafi aðgang að menntun án tillits til efnahags eða félagslegra aðstæðna og að það megi aldrei hindra aðgang fólks að menntakerfinu í landinu. Menntakerfið er ein af meginstoðunum, um það erum við öll sammála. Hátt menntunarstig eykur hagvöxt og margar rannsóknir hafa sýnt það að hvert ár í framhaldsskóla — þá er ég ekki að tala um lokapróf heldur hvert ár í framhaldsskóla — auki um 7% þann hagvöxt sem hver einstaklingur býr til. Þessi hæstv. ríkisstjórn ætlar að meina 522 ársnemendum um nám, 522 nemendum í fullu námi, 1.650 einstaklingum, þó að það sé alveg ljóst að það mun lækka menntunarstig og hafa slæmar afleiðingar, því að auðvitað geta ekki allir farið á Keili eða Bifröst á háskólabrú. Það er nám sem er dýrt. Það er að vísu lánshæft en hver önn kostar 225 þús. kr. bara í skólagjöld. Lánasjóður íslenskra námsmanna getur lánað fyrir skólagjöldunum en eins og við þekkjum úr umræðum um lánasjóðinn er reiknað með að helmingur lánanna verði ekki endurgreiddur. Ég get því ekki betur séð en að þessi leið, sem greinilega er ætluð í sparnaðarskyni, ætluð til að geta greitt fyrir kjarasamning kennara, muni síðan verða kostnaðarsöm til framtíðar.

Við leggjum mikla áherslu á að þessi fyrirætlan og breytt stefna í menntamálum í landinu, sem ekki hefur fengið neina kynningu eða umræðu og er bara skellt fram í fjárlagafrumvarpi, nái ekki fram að ganga. Við munum leggja okkur fram við að koma í veg fyrir það að stefnan nái fram að ganga og við erum hér með breytingartillögu sem er aðeins upp á 500 millj. kr. en mun nægja til þess að skipta á milli framhaldsskólanna svo að þeir geti tekið 25 ára og eldri nemendur inn í framhaldsskólana.

Við erum með breytingartillögu varðandi Ríkisútvarpið. Þar gerum við ráð fyrir að 19.400 kr., sem er útvarpsgjaldið eins og það er núna árið 2014, gangi óskert til Ríkisútvarpsins. Þannig þurfum við að gera breytingartillögur á bæði tekju- og gjaldahlið, en eins og kunnugt er hafði verið gert ráð því að útvarpsgjaldið lækkaði í 17.800 kr. og auk þess að það rynni ekki allt til Ríkisútvarpsins. Stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa lýst því yfir að það verði meiri háttar breytingar á starfsemi stofnunarinnar ef þær tillögur ná fram að ganga. Við gerum hér breytingartillögu um að 280 milljónir komi á tekjuhliðina og 712 milljónir á móti á gjaldahliðina og þannig verði tryggt að Ríkisútvarpið geti sinnt lögbundnum skyldum sínum í menningarmálum gagnvart öryggi og lýðræðishlutverkinu og hafi raunhæfan möguleika á því að halda uppi fjölbreyttri dagskrá.

Frá hruni hefur 105 starfsmönnum verið sagt upp hjá stofnuninni. Það hefur verið hagrætt geysilega en núna er staðan orðin þannig að með þessum fyrirætlunum hæstv. ríkisstjórnar verður umtalsverð breyting á stofnuninni og ekki miklar líkur á að hún geti staðið undir lögbundnu hlutverki sínu sem er, eins og ég sagði áðan, menningartengt, það er tengt öryggis- og lýðræðismálum og einnig þjónustu við landsmenn, að halda hér uppi fjölbreyttri dagskrá.

Við leggjum einnig til að sjóðirnir, listasjóðirnir, myndlistarsjóður fái 25 millj. kr. aukið framlag, Bókasafnssjóður höfunda 35 millj. kr. aukalega og tónlistarsjóður fái 25 milljónir. Þetta er breytingartillaga við breytingartillögur meiri hlutans þar sem við hækkum þau framlög upp til að koma til móts við þessa sjóði og teljum það náttúrlega afskaplega mikilvægt, ekki síst fyrir Bókasafnssjóð höfunda ef fyrirætlan um að hækka virðisaukaskatt á bókum nær fram að ganga.

Landssamband æskulýðsfélaga, þarna gerum við ráð fyrir 15 millj. kr. framlagi þannig að það auðveldi æskulýðnum að taka þátt í alþjóðlegum verkefnum. Þeir þurfa alltaf að vera með framlög á móti framlögunum sem þau fá þá erlendis frá og þetta ætti að auðvelda það samstarf.

Síðan er framlag til notkunar íslensku í stafrænni upplýsingamiðlun. Þetta er þingsályktunartillaga sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum í þessum sal en ekkert framlag hefur verið lagt í það að fylgja þeirri þingsályktunartillögu eftir og sama á við um upplýsinga- og tjáningarfrelsið, þingsályktunartillöguna sem hefur hlotið skammstöfunina IMMI. Þar er einnig gert ráð fyrir fjármagni til að fylgja þeirri þingsályktunartillögu eftir.

Virðulegur forseti. Þá erum við komin að breytingartillögu minni hlutans sem snýr að sóknaráætlun landshluta. Við bætum þar við upp í 400 millj. kr., eins og framlagið var á árinu 2013. Auðvitað mætti hugsa sér að hækka þá tölu en hæstv. ríkisstjórn ætlaði að þurrka þetta átak út í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2014. Það kom inn tillaga á milli umræðna þannig að rétt rúmar 100 millj. kr. fóru í sóknaráætlun landshluta á árinu 2014. Sama gerðist síðan í fjárlagafrumvarpinu 2015, sóknaráætlunin var nánast slegin af með 15 millj. kr. framlagi. 85 milljónum á að bæta við en minni hlutinn segir: Það er ekki nóg. Þetta er verkefni sem er þverpólitísk samstaða um alls staðar í sveitarfélögunum. Hundruð manna hafa setið á fundum til þess að vinna að sóknaráætlun fyrir landshluta. Þar er meginþemað það að þekking og reynsla þeirra í sveitarfélögunum verði nýtt við fjárlagagerðina og þeir komi í auknum mæli að samningu fjárlagafrumvarpa og forgangsraði verkefnum eftir því sem vilji stendur til í landshlutunum. 400 milljónir eru til bóta en til framtíðar litið eigum við auðvitað að auka í þennan lið og halda áfram á þeirri braut að sveitarfélögin geri sínar áætlanir og forgangsraði verkefnum og nái sátt í landshlutunum um það.

Ekki er gert ráð fyrir nema 145,8 milljónum í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Þetta leyfi ég mér að kalla hneyksli. Það er stórkostleg fjölgun ferðamanna og það vita allir að átroðningurinn er mikill og það sér á ferðamannastöðunum vegna þess að ekki hefur verið lagt nægilegt fé í að byggja upp innviðina, hvorki á ferðamannastöðunum né á friðlýstu svæðunum og ekki heldur til þess að búa til aðdráttarafl víðar en á vinsælu ferðamannastöðunum. Í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða bíða umsóknir upp á 2 milljarða. Hæstv. ríkisstjórn setur 145,8 millj. kr. í sjóðinn. Við leggjum til í minni hlutanum að bætt verði við um 600 milljónum. Auðvitað er það ekki mjög há upphæð, en við erum ábyrg í tillögugerð okkar og viljum ekki að ríkissjóður verði með halla á árinu 2015. En á meðan staðan er svona er nauðsynlegt að setja að minnsta kosti 745,8 millj. kr. í sjóðinn til þess að vinna að þessum verkefnum.

Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur talað um það frá því að hún settist í ráðherrastólinn að áform séu uppi um að koma með frumvarp um gjaldtöku sem mundi nýtast til uppbyggingar á ferðamannastöðum og friðlýstum svæðum. Það eru liðnir 18 mánuðir og það bólar ekkert á þessu frumvarpi. Það er talað um það sé nýafgreitt með fyrirvara hjá framsóknarmönnum. Ég veit ekki hvað í þeim fyrirvara felst, en hv. þingmenn Framsóknarflokksins munu þá væntanlega útskýra það þegar umræðurnar fara af stað og frumvarpið verður lagt fram. En fyrir fram, áður en umræður hefjast hér, er ljóst að það er ósætti í samfélaginu um þær hugmyndir sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra er að bera fram. Ég hef sagt að mér finnist þetta ekki góðar hugmyndir, alla vega algjörlega óhugsandi að ég þurfi að borga peninga, alveg sama þó að það séu ekki nema 500 kr. á ári í þrjú ár, 1.500 kr., til þess að fara í mína árlegu ferð í þjóðgarðinn á Þingvöllum. Ég get ekki hugsað mér þetta og það er sögulegt, það er menningartengt. Þarna eru rætur okkar Íslendinga. Við höfum getað gengið frjáls um Þingvelli frá landnámi og ég held að Íslendingar muni ekki sætta sig við það að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra ætli að skerða það frelsi með gjaldtöku. Ég á því eftir að sjá að það gangi snuðrulaust í gegnum þingið, en við skulum endilega skoða þetta með jákvæðum huga því að nauðsynlegt er að finna leiðir til að byggja upp ferðamannastaðina.

Virðulegi forseti. Hæstv. fráfarandi innanríkisráðherra fannst það góð hugmynd að skera niður 56 millj. kr. sem ætlaðar voru í úrræði fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Þetta eru aðeins 56 millj. kr. en skipta þolendur kynferðisofbeldis mjög miklu máli, að flýta málunum í gegnum kerfið eins og hægt er. Því miður er það þannig að þolendur kynferðisofbeldis eru oftar en ekki börn. Við í minni hlutanum getum ekki tekið undir að þetta sé góð hugmynd og leggjum til að þessum 56 milljónum verði haldið inni og átakinu verði fylgt eftir, vegna þess að við höfum fengið upplýsingar um það í hv. fjárlaganefnd að ekki sé vanþörf á því og t.d. fór ríkissaksóknari ágætlega yfir það með okkur. Ég vona því að þó að meiri hlutinn og hv. þingmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins geti ekki samþykkt allar tillögur okkar að þeir velji a.m.k. þetta til þess að samþykkja.

Einnig eru hér lagðar til 50 millj. kr. til Útlendingastofnunar. Það er lögð til tímabundin 21 millj. kr. hækkun fjárveitinga til nýrrar kærunefndar útlendingamála, sem tekur við kærumálum nú um áramótin. Markmiðið er að draga úr kostnaði vegna dvalar- og umönnunarkostnaðar hælisleitenda. Aukningin svarar til tveggja starfsmanna og án þeirra mun umönnunarkostnaður verða talsvert meiri en gert er ráð fyrir í fjárlögum og fjárveitingin er því líkleg til að spara mun meira fjármagn en beiðninni nemur.

Hins vegar er talað um 29 millj. kr. tímabundna hækkun fjárveitinga til að standa undir átaki í úrvinnslu eldri mála hælisleitenda. Í ágúst á þessu ári var sett það markmið að meðferð á málum hælisleitenda taki ekki meira en 90 daga og út af standa eldri mál. Það er afar kostnaðarsamt að draga þetta á langinn þannig að 50 milljónum samtals leggur minni hlutinn til að verði varið til Útlendingastofnunar til viðbótar því framlagi sem fyrir er.

Við leggjum til að í Vegagerðina fari 600 millj. kr. í nýframkvæmdir. Ég þarf ekki að rökstyðja það, virðulegi forseti, við þekkjum vel hvernig staðan er víða á vegum landsins. Þar er umferðaröryggi ógnað á sumum svæðum og það þarf ekki aðeins að fara í viðhald heldur þurfum við enn meira í nýframkvæmdir.

20. tillagan hér, breytingartillaga okkar minni hlutans, lýtur að hafnarframkvæmdum. Það eru 180 milljónir sem ættu að fara til Helguvíkurhafnar til þess að byggja viðlegukant. Þannig var að á síðasta kjörtímabili, þegar hér var umræða um iðnaðarsvæðið á Bakka og þær sérstöku aðgerðir sem farið var í þar til þess að laða að fyrirtæki og byggja upp iðnaðarsvæðið, var m.a. farið í hafnarframkvæmdir við Húsavíkurhöfn. Þegar það mál var afgreitt úr ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var talað um að þegar sömu skilyrði hefðu verið uppfyllt á svæðinu við Helguvík kæmi þar framlag í hafnarframkvæmdir. Það hefur hins vegar ekki gerst. Nú er búið að lyfta fyrirvörum af öðru kísilverinu sem á að koma þarna og þessi viðlegukantur er nauðsynlegur til að mögulegt sé að þjónusta það kísilver.

Reykjanesbær hefur verið keyrður í þrot. Þetta er skuldugasta sveitarfélag landsins sem á í miklum erfiðleikum og verið er að reyna að byggja þar upp og þeir eiga ekki 180 millj. kr. til að byggja slíkan viðlegukant, en það er nauðsynlegt til þess að þarna geti orðið uppbygging. Framkvæmdir við kísilverið eru byrjaðar og á árinu 2015 þarf viðlegukanturinn að koma. Virðulegur forseti, þetta er svo mikilvægt fyrir Suðurnesjamenn að hæstv. ríkisstjórn getur ekki horft fram hjá því. En á sama tíma og ríkisstjórnin leggur ekki sömu ívilnanir til Suðurnesjamanna eins og þeir gera til iðnaðarsvæðisins á Bakka, þó að sambærilegar séu að þessu leyti, taka þeir arð frá Isavia, 700 millj. kr. arð frá Isavia, og stjórnendur þess fyrirtækis hafa sagt að ef það verður gert verði framkvæmdir við Keflavíkurflugvöll dregnar saman, þjónusta við stóru flugfélögin sem þarf að stórauka vegna þess að það er nefnilega þannig að öllum þessum ferðamönnum fylgja auknar flugsamgöngur og aukið álag á Keflavíkurflugvöll og þar eru áform uppi um miklar breytingar sem eru nauðsynlegar.

Ég er ekki að kvarta undan því að 500 millj. kr. séu ætlaðar í aðra flugvelli á landinu. Það er sjálfsagt að gera og taka það úr ríkissjóði. En það er annað að rífa 700 millj. kr. út úr Isavia sem nota átti til uppbyggingar á Keflavíkurflugvelli og atvinnu þar, þar sem atvinnuleysi hefur verið mest á landinu. Það er enn verst á Suðurnesjum, um 5%, hæst var það 15%, og það eru margar ástæður fyrir því og ekki tími fyrir mig til að fara yfir það hér.

Virðulegi forseti. Það er svo undarlegt að hv. þingmenn Suðurkjördæmis úr Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum sem eru núna orðnir hæstv. ráðherrar kvörtuðu mikið undan því á síðasta kjörtímabili að ekki gengi vel að byggja upp á Suðurnesjum. Samt sem áður héldum við þar úti tveimur nýjum skólum, Fisktækniskólanum og Keili, og gerðum ýmsa hluti. Þessir sömu hæstv. ráðherrar lyfta ekki litla putta fyrir svæðið sem þeir vita mætavel hvernig stendur. Fisktækniskólinn er hreinlega skorinn niður, hann er hreinlega skorinn niður. 20 millj. kr. tímabundið framlag til skólans er skorið niður. Hvað á þetta að þýða? Á að leggja skólann af?

Síðan er Keilir eini skólinn sem er með nám á háskólastigi sem fær ekki neitt í breytingartillögum eða í frumvarpinu. Þarna eru tveir nýir skólar á Suðurnesjum sem eru afskiptir af hæstv. ríkisstjórn.

Stóra málið í tillögum okkar minni hlutans er auðvitað Sjúkratryggingarnar Íslands og Landspítalinn. Sjúkratryggingarnar, til þess að berja á bak aftur þá gífurlegu hækkun á greiðsluþátttöku, sem er á árinu 2015, ef áætlanir ná fram að ganga, 1.900 milljónir. Þetta gengur ekki og við vitum alveg hvernig staðan er og það þekkja allir sögur af einhverjum, annaðhvort í fjölskyldu þeirra eða í vinahópi, sem hefur hætt við að fara til læknis vegna kostnaðar. Það er ekki hægt að líða. Við höfum heyrt sögur af fólki sem þarf sérstaklega á þjálfun að halda og það fólk tekur jafnvel annan hvern tíma út af auknum kostnaði, en þar voru gífurlegar hækkanir sem áttu sér stað 1. janúar 2014 með reglugerðarbreytingu hæstv. heilbrigðisráðherra. Þetta er ólíðandi.

Við viljum að við þann milljarð sem meiri hlutinn leggur til Landspítalans verði bætt 250 milljónum, 200 milljónum til þess að bregðast við biðlistum sem munu lengjast út af verkfallinu og engin lausn er í sjónmáli þar, og síðan að 50 milljónir fari á BUGL.

Virðulegur forseti. Hæstv. ríkisstjórn veður inn í samningsbundna liði og færir þá einhliða niður, eins og t.d. styttingu bótatíma. Minni hlutinn leggur til að bótatíminn verði sá sami og leggur á það áherslu að aldrei sé farið inn í svona samningsbundin réttindi fólks einhliða. Það þarf að semja um það ef stytta á þennan tíma og finna út úr því hvernig þetta leggst.

Ég nefndi Reykjanesbæ áðan sem á í miklum fjárhagslegum erfiðleikum eftir mikla stjórnartíð sjálfstæðismanna þar til margra ára, (Gripið fram í: Óráðsíu.) og óráðsíu, ég get tekið undir það. En þar, aðeins með þessu, er verið að auka álögur um 100 millj. kr. á Reykjanesbæ. Þar eru mjög margir langtímaatvinnulausir af augljósum orsökum og þeir sem til þekkja hefðu átt að gera sér grein fyrir því áður en þeir lögðu þetta til. Það leggjast á Reykjanesbæ að minnsta kosti 100 millj. kr. af þeim 500 milljónum sem leggjast á sveitarfélögin við þessa aðgerð, en hæstv. ríkisstjórn ætlaði að spara sér milljarð með því að skerða réttindi fólks sem hefur lent í þeim hörmulegu aðstæðum að vera langtímaatvinnulaust.

Virðulegur forseti. Ég sé að tími minn er búinn og ég kemst ekki lengra, en ég nýti þá frekar tíma minn síðar í umræðunni ef ég tel ástæðu til þess.