144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og góða yfirferð yfir breytingartillögur minni hluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið. Mig langar að koma aðeins inn á skólamálin og stöðu framhaldsskólanna og framhaldsdeildanna og dreifnámið úti um land. Við þekkjum báðar hve miklu máli framboð á menntun á framhaldsskólastigi skiptir byggðirnar og þó að stjórnarmeirihlutinn hafi bætt einhverju inn í þennan málaflokk og tillögur minni hlutans hljóði upp á 500 milljónir inn í þennan málaflokk þá tryggir það aðeins hið svokallaða gólf í framhaldsskólunum en ekki litlu framhaldsdeildirnar.

Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns. Hvernig sér hún framhaldið fyrir sér á þeim stöðum sem þurfa jafnvel að fækka nemendum, eins og Fjölbrautaskóli Snæfellinga sem stendur frammi fyrir því að þurfa að skera niður framhaldsdeildina á Patreksfirði?

Nú sitja ekki allir við sama borð. Sums staðar þar sem boðið er upp á fjarnám eða dreifnám, eins og á Blönduósi, Búðardal, Hvammstanga og Hólmavík, er námið fjármagnað af sóknaráætlun. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að þessu verði komið undir einn hatt og fjármagn til þessarar menntunar verði tryggt? Það skiptir sköpum fyrir þessar byggðir að geta boðið upp á þetta nám í heimabyggð. Það hefur sýnt sig.

Það er alveg ótrúlegt að stjórnarmeirihlutinn hafi ekki meiri metnað en þann sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu gagnvart þessum deildum.