144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér líst engan veginn á þessar fyrirætlanir hæstv. ríkisstjórnar. Í rauninni skil ég ekki hvert á að fara með stofnunina. Getur verið að hæstv. ríkisstjórn átti sig ekki á mikilvægi stofnunarinnar, menningarlegu mikilvægi og lýðræðislegu, og ég tala nú ekki um öryggisþáttinn til þess að tryggja góða dreifingu um allt land?

Bæði starfsmenn og stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa talað mjög skýrt og sagt að ef gjaldið verði óbreytt frá árinu 2014, 19.400 kr., og renni óskert til útvarpsins, eins og lög gera ráð fyrir, þá muni verða hægt að halda úti góðri dagskrá, stofnunin geti sinnt sínu lögbundna hlutverki og viðhald á dreifikerfinu verði líka mögulegt. Við viljum stefna að því og tillaga okkar gengur út á það.