144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 6. þm. Suðurk. ræðuna, hún var um margt áhugaverð.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um Suðurnes og þau ýmsu vandamál sem eru aðkallandi þar, sem ég sé engan ágreining um að séu aðkallandi þar og gott ef hv. þingmaður stendur ekki einnig að þingsályktunartillögu um að búa til áætlun um hvernig hægt sé að leysa þau fjölmörgu vandamál sem eru til staðar á Suðurnesjum, kannski ekki síst sökum brotthvarfs bandaríska hersins, ef ég skil málavexti rétt.

Ég velti fyrir mér afstöðu hv. þingmanns til annarra svæða á landinu sem eiga kannski ekki alveg við jafn mikil vandamál eða kannski ekki sömu vandamál að stríða og á Suðurnesjum, hvort hv. þingmaður telur ástæðu til að leggjast í einhvers konar sóknaráætlun gagnvart atvinnulífi og félagslífi og slíku á öðrum svæðum landsins, vegna þess að nú er ljóst að landsbyggðin á víða undir högg að sækja.

Það er að mér skilst enn þá sú þróun í gangi að fólk safnast saman í Reykjavík og í reynd er Ísland orðið hálfgert borgríki ef maður lítur á fjöldatölur. Þetta er þróun sem ég veit ekki til að neinn vilji í raun og veru endilega, kannski er sumum sama en mér er ekki sama og ég held að hv. þingmanni sé ekki sama. En þetta hlýtur að vera af einhverri ástæðu, þetta hlýtur að vera vegna þess að fólk sér ekki sömu tækifæri úti á landi og það sér í Reykjavík. Því er greinilegt að víða á landinu mætti leggja í einhvers konar sóknaráætlun á ýmsum sviðum. Ég mundi setja internetið þar ofarlega á lista vegna þess að það er svo mikið sem hægt er að gera með því. En það er náttúrlega engin heildarlausn á öllum þeim fjölmörgu og fjölbreytilegu vandamálum (Forseti hringir.) sem eru til dæmis á Suðurnesjum.

Ég hefði gaman af því að vita hvort hv. þingmaður mundi styðja mál sem væri sambærilegt gagnvart öðrum landshlutum.