144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög jákvætt svar og fagna því að hv. þingmaður hafi og komi til með að styðja sambærileg mál fyrir landsbyggðina.

Ég er ein af þessum svokölluðu 101 miðbæjarrottum sem þykir mjög vænt um landsbyggðina — ég fagna því enn fremur að hæstv. forseti hafi ekki slegið í bjöllu vegna þess að ég ber þann titil með stolti, en tel mig þó mjög skilningsríkan gagnvart því að landsbyggðin er svolítið skilin út undan eða situr eftir í mikilli þróun sem hefur átt sér stað í Reykjavík hreinlega sökum fólksfjölda. Mér finnst það mjög slæmt. Mér er mjög annt um að hafa allt landið í byggð og búa þannig um málin að það sé tiltölulega auðvelt að vera hvar sem maður vill á landinu og njóta íslenskrar náttúru á þeim forsendum sem manni sýnist.

Vegna þess að hv. þingmaður nefndi menntun síðast í þessum lista, hún nefndi atvinnu (Forseti hringir.) og heilbrigðisþjónustu og menntun, velti ég fyrir mér: Er það ekki öfugt? Er ekki menntunin forsenda þess að hægt sé að byggja upp líflegt atvinnulíf, hvort sem það er á Suðurnesjum eða annars staðar?