144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að nefna þetta í neinni forgangsröð, en það er augljóst að atvinnan er undirstaða velferðarinnar og síðan er það heilbrigðiskerfið og menntakerfið. Menntakerfið er auðvitað afar mikilvægt og ég hef áhyggjur af því að verið sé að hola það að innan núna, einkum í framhaldsskólunum, og við þekkjum umræðuna um heilbrigðiskerfið.

Okkur skortir framsækna byggðastefnu á Íslandi og þessi hæstv. ríkisstjórn vinnur ekki heildstætt að henni, því miður. Evrópusambandið er með mjög framsækna byggðastefnu og við mættum líta til þess hvernig það hugar að byggðum þar sem fólksfækkun er mikil og skilyrði til búsetu erfiðari en annars staðar. Norðmenn til dæmis reka mjög skilvirka byggðastefnu sem við ættum að líta til. Við ættum að leggja okkur fram við byggðastefnuna því að við viljum halda landinu okkar öllu í byggð og þá verðum við að skapa skilyrði til þess. Það getur kostað peninga en við þurfum (Forseti hringir.) að leggja þá út til þess að halda landinu öllu í byggð.