144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir afbragðsfína ræðu. Mig langar að taka undir orð hennar um að fjárlagafrumvarp sé áhugaverð lesning en það sé samt ekki auðveldasta eða aðgengilegasta ritið sem hægt er að lesa vegna þess að það sé oft svo erfitt að sjá hvaða áhrif það sem er verið að gera hafi á samfélagið í praxís. Einmitt þess vegna má taka undir orðaskipti hv. þingmanna í síðustu andsvörum, að við þurfum öflugan fjölmiðil eins og RÚV sem á auðvitað að taka þennan bolta og halda á lofti. En þetta var útúrdúr.

Mig langaði að ræða við hv. þingmann um fjárlagafrumvarpið út frá því sem hún sagði, að skuldaleiðréttingin smyrðist á svo marga og að hún væri ósátt við þá forgangsröðun. Það er einn hópur sem ég hef sérstakar áhyggjur af, það eru börn sem koma úr tekjulágum fjölskyldum. Þar sem ég veit að hv. þingmaður þekkir vel til neytendamála langar mig að heyra hennar sjónarmið. Vegna þeirra heildarmyndar sem fjárlagafrumvarpið boðar er þá ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu þessara barna, ekki bara sem neytenda heldur hreinlega sem þátttakenda í samfélaginu?