144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir áhyggjur hv. þingmanns. Við höfum rætt það hérna að ríkisstjórnin ætli að hækka virðisaukaskatt á matvæli. Við vitum að þeir tekjulægri eyða hlutfallslega meira af ráðstöfunartekjum sínum í mat. Við vitum líka að þeir hafa ekki efni á að kaupa jafn góðan mat. Það á nefnilega líka að lækka sykurskattinn. Útkoman verður í rauninni sú að þeir sem eru tekjulægri hafa efni á kjötfarsi en hinir á nautahakki. Það er óþolandi. Ég skil ekki að það skuli ekki vera meiri umræða í þjóðfélaginu um hækkunina á virðisaukaskatti á mat. Það kemur mér á óvart hvað hún er lítil.

Ég velti líka fyrir mér ef við tækjum peningana sem fara í framkvæmdina við þessar skuldaniðurfellingar og settum allar þær hundruð milljónir í geðheilbrigðismál barna og unglinga. Hvað gætum við gert? Ég veit ekki hvað þetta er komið upp í háa fjárhæð, 200–300 milljónir, bara framkvæmdin við þessa aðgerð.