144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu.

Mér finnst alltaf skemmtilegt þegar hv. þingmaður fer inn á vinnubrögð og það sem unga kynslóðin í dag kallar „meta“ eða „meta-umræðu“, sem er umræða sem er til hliðar við efnislega umræðu. En ég þarf að gera svolítið í ræðu minni á eftir sem ég hef aldrei skilið hvers vegna þarf að gera. Hv. þingmaður nefndi að stundum þyrftum við að útskýra ferlið í þinginu á mannamáli og ég þarf víst að kalla aftur breytingartillögu, sem ég vil þó að fari í gegn, svo hún verði rædd í nefnd á milli 2. og 3. umr. Mér finnst það mjög undarlegt orðalag vegna þess að ég vil ekkert afturkalla hana, ég vil að hún nái í gegn. Ég vil sem sagt að þingnefnd fjalli um tillögu mína á milli 2. og 3. umr. Orðalagið kemur því fólki oft spánskt fyrir sjónir sem ekki er vant að vinna við þetta.

Hv. þingmaður er fulltrúi í hv. fjárlaganefnd sem ég var í á síðasta ári, sælla minninga, þ.e. þegar ég var ekki upptekinn í hv. velferðarnefnd. Mig langar að spyrja hana út í opnun nefndarfunda. Ég man ekki til þess að hafa setið marga fundi hér, hvort sem er í fjárlaganefnd eða einhverri annarri nefnd, þar sem eitthvað hefur farið fram sem ekki þolir dagsljósið, þvert á móti ef eitthvað er. Ýmislegt sem kemur fram á fundunum mundi hjálpa mjög mikið til við umræðuna, ekki bara í þjóðfélaginu heldur líka hjá þingmönnum. Í staðinn fyrir að maður þurfi að fara í glósur hjá einhverjum öðrum þingmanni, sem eru þá væntanlega með sínar túlkanir á því sem fram fór á fundinum, þá gæti maður einfaldlega flett því upp og mætt á í raun alla fundi, í það minnsta hlustað á þá. Það er afskaplega hvimleitt fyrir okkur pírata sem erum þrír talsins á þingi í átta fastanefndum og einni alþjóðanefnd, við missum sjálfkrafa 1/3 af öllu því sem gerist í nefndastörfum Alþingis, þ.e. ef allir mæta alltaf á alla fundi, hafa aldrei neitt að gera (Forseti hringir.) og vinna ekkert að eigin málum. Ég velti fyrir mér afstöðu hv. þingmanns (Forseti hringir.) gagnvart opnun nefndarfunda, þá meina ég í víðum skilningi. Það er hægt að útfæra (Forseti hringir.) það á marga vegu.