144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 10. þm. Norðaust. svarið.

Eins og hv. þingmaður bendir á hefur fólk notað ýmis rök gegn því að opna nefndarfundi. Annar sérlega háttvirtur þingmaður sagði við mig þegar hann gekk fram hjá mér út af fundi í fyrradag, minnir mig eða alla vega nýlega: Opnir fundir eru bíó. Menn eru hræddir við að þingmenn fari að haga sér einhvern veginn öðruvísi á nefndarfundum ef þeir eru opnir. Persónulega tek ég þá afstöðu að mér er bara alveg sama, þá er það bara þannig. Það er alveg hægt að grenja yfir því en það er hins vegar mjög gagnslaust.

Svo eru til svo margar leiðir til þess að útfæra þetta. Mér dettur til dæmis í hug að þetta væru upptökur sem væru aðgengilegar öðrum þingmönnum. Svo mundi það af og til koma fyrir að það lenti í blöðunum og þá grenjar einhver yfir því, en það væri bara allt í lagi af og til, það væri enginn hrikalegur skaði skeður nema auðvitað ef um væri að ræða nefndarfundi þar sem gæta þarf mikillar leyndar eðli málsins samkvæmt. Ég ímynda mér að það yrði til dæmis (Forseti hringir.) algengt í utanríkismálanefnd eða stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem þarf (Forseti hringir.) að ræða mjög viðkvæm málefni sem alls ekki mega fara út. En þegar kemur að (Forseti hringir.) fjárlaganefnd velti ég fyrir mér hvað það gæti verið (Forseti hringir.) á þeim nefndarfundum sem ekki mætti koma fyrir augu almennings.