144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður sagði að við fyrstu sýn hafi náttúrupassinn kannski virst allt í lagi. Ég verð að segja það að frá mínum bæjardyrum séð hefur hann aldrei verið í lagi. Hv. þingmaður segir að við eigum ekki að vera hrædd við að stinga upp á einhverju sem við höfum ekki hugsað til enda. Ég er alveg sammála því, en að sitja í 18 mánuði og hugsa eitthvað í botn og koma svo með þessa tillögu, fólk má náttúrlega líka vara sig á því.

Nú segir fólk gjarnan: Ef við getum ekki haft þennan náttúrupassa getum við sett á komugjald eða gistináttagjald, eða heitir það ekki eitthvað svoleiðis? Var það rétt skilið hjá mér sem þingmaðurinn sagði: Við þurfum ekkert sérstakt gjald, við bara innheimtum almenna skatta, t.d. virðisaukaskatt hærri en 7% á gistingu, sem er almenn skattheimta en ekki eitthvert sérstakt gjald, þá getum við veitt úr almennum sjóðum ríkisins til þess að sjá um að innviðirnir sem þurfa að vera í ferðaþjónustunni séu þannig að getum tekið á móti öllum þeim fjölda ferðamanna sem streymir til landsins?