144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort það sé alltaf gott að hafa nefndarfundi opna. Svarið er einfaldlega nei, það er ekki alltaf gott. Ég vil meina að það sé að jafnaði gott. Mér finnst frekar að í stað þess að sérstaka ástæðu þurfi til að hafa nefndarfund opinn eigi að þurfa sérstaka ástæðu til að hafa hann lokaðan. Sem dæmi eru mörg mál hjá utanríkismálanefnd sem þola hreinlega ekki dagsljósið vegna þess að þau eru þess eðlis. Þau eru kannski um samninga við önnur ríki þar sem ákveða þarf okkar mál byggt á hagsmunum allra landsmanna án þess að erlendir hagsmunaaðilar viti hvað við erum að pæla. Það er gott og gilt og ég veit ekki betur en að fullkominn skilningur sé á því. Sömuleiðis geta komið upp mál í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem eru viðkvæm eða á því stigi að þau geta valdið saklausu fólki miklum usla vegna þess að þar eru kannski óljós gögn um að einhver hafi gert eitthvað rangt sem reynist síðan ekki vera.

Það eru ýmsar ástæður fyrir því að menn vilja hafa lokaða nefndarfundi, en sú ástæða að það sé bara almennt óþægilegt fyrir þingmenn að tala tæpitungulaust finnst mér ekki vera góð ástæða til þess að hafa alla nefndarfundi lokaða nema þá sem eru sérstaklega opnir. Mér finnst það einfaldlega ekki sannfærandi rök.

Auðvitað er alltaf einhver fórnarkostnaður við allar breytingar. Spurningin er hvort við græðum meira á opnum nefndarfundum, þá í bættum vinnubrögðum og lýðræðislegri nálgun á málin, eða hvort við töpum vegna þeirra verkfæra sem við höfum til þess að fjalla um mál. Eitt af þeim mörgu verkfærum er að tala við hvert annað tæpitungulaust. Það er eitt af mörgum verkfærum. Annað verkfæri, sem ég vil meina að við vannýtum verulega, er samtalið við almenning og samtalið við hvert annað. Ég trúi því að þessi tvö atriði mundu batna við að hafa opna nefndarfundi, jafnvel þótt það hefði einhvern keim af smáleikriti. Það er eins hérna á þingi, það er eins í fjölmiðlum og það er alveg eins þegar þingmenn tala almennt. Það er fylgifiskur lýðræðisins og það verður bara að hafa það. Mér finnst það ekki alvarlegt áhyggjuefni (Forseti hringir.) miðað við það sem lýðræðið mundi eflast við að opna nefndarfundi.