144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú þyrfti ég meiri ræðutíma til að fara nógu ítarlega í þetta tiltekna málefni. Ég þakka fyrirspurnina vegna þess að hún varðar mjög mikilvægt málefni að mínu mati.

Það kemur einhvern veginn alltaf fyrst upp í umræðunni um að nemendur greiði sjálfir fyrir rafræn námsgögn að menn hafi áhyggjur af því að fólk sem er verr sett fjárhagslega hafi ekki sama aðgang að námi og aðrir. Ég hef mestar áhyggjur af því að höfundar fái ekki nóg borgað fyrir vinnuna sína. Ég er í prinsippinu sammála því að námsgögn eigi að vera ókeypis eða í það minnsta niðurgreidd af yfirvöldum. Núverandi ástand á námsgagnamarkaði þykir mér ótækt. Höfundar fá ekki borgað svo neitt teljist og sömuleiðis fylgja því mörg vandamál sem ég hef því miður ekki tíma til að fjalla um, en ástandið er ótækt þannig að ég er fullkomlega hlynntur því og tel brýnt að fara yfir í rafræn námsgögn. Kostnaðarþátttaka nemenda vekur mér ugg vegna þess að þetta eru upplýsingar og upplýsingar eru afritanlegar. (Forseti hringir.) Nemendur munu afrita námsefnið þannig að ef þeir eru neyddir til að borga það (Forseti hringir.) munu þeir ekki borga það. (Forseti hringir.) Tilraunin mun mistakast, höfundar munu ekki fá borgað (Forseti hringir.) og við þurfum að fara í aðra útfærslu. (Forseti hringir.) Mín skoðun er sú að ríkið eigi að kosta (Forseti hringir.) þetta, í það minnsta á tilraunastigi.