144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:06]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Mig langar að koma aðeins inn á mál sem varða vinnumarkaðinn og kjarasamninga. Hv. þingmaður kom inn á jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóða, að verið sé að skerða framlög til jöfnunar örorkubyrði og þar með að skerða lífeyrisgreiðslur til félagsmanna Alþýðusambandsins. Þetta kemur sérstaklega illa niður á lífeyrissjóðum sem hafa þunga örorkubyrði eins og lífeyrissjóðum verkamanna og sjómanna og gæti þýtt allt að 4,5% skerðingu til þeirra sjóðfélaga og er óásættanlegt.

Hv. þingmaður þekkir það samkomulag sem gert var á milli aðila vinnumarkaðarins um þessi mál árið 2005 og ekki virðist hafa átt sér stað neitt samráð þegar ríkisstjórnin ákveður í fjárlagafrumvarpinu að skerða þessar greiðslur eða hætta við þær. Reyndar var gerð sú breyting við 2. umr. að fresta þessari skerðingu um hálft ár en síðan skellur þetta á af fullum þunga.

Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart þessu og þeirri spurningu sem eðlilegt er að menn velti upp hjá Alþýðusambandinu, hvort verið sé að mismuna gagnvart sjóðum sem njóta ríkisábyrgðar, hvort það sé að gliðna enn meira þar í milli en er í dag og hvort hún sjái einhverja leið til að bæta þessum sjóðfélögum þá miklu skerðingu sem blasir við í framhaldinu.