144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það virðist vera að þessi ríkisstjórn telji ástæðu til að þyngja byrðarnar á þeim sem minna mega sín, eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni, þeim þjóðfélagshópum sem eru veikastir fyrir. Þá vil ég koma inn á styttingu á atvinnuleysisbótatímabilinu, að stytta eigi það niður í tvö og hálft ár og menn hafa ekkert dregið úr þeirri ákvörðun við 2. umr. Þetta getur þýtt að um 600–700 manns missi rétt sinn nú um áramótin og mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart því hvað verður um þann hóp.

Nú er líka verið að þrengja að möguleikum fólks til að afla sér menntunar. Sjóður sem snýr að framhaldsfræðslu fyrir fólk með litla formlega menntun er skertur og 25 ára og eldri hafa ekki aðgang að framhaldsskólum eftir áramót í bóknámi. Hvaða möguleika hefur það fólk sem stendur frammi fyrir því að hafa bara framfærslu sveitarfélaga sér til fulltingis eftir áramót, 600–700 manns? Hvað á þetta fólk að gera? Sér hv. þingmaður einhver úrræði fyrir þennan hóp þegar samhliða er verið að skerða almennar vinnumarkaðsaðgerðir?

Hv. þingmaður þekkir verkefnið Nám er vinnandi vegur og ég spyr hvort hún sjái hvernig það lítur út, hvort hún þekki það í þessu frumvarpi, hvort það sé eitthvað sem grípur þetta fólk, það verkefni, og yfir höfuð hvernig hún sér fyrir sér að hægt sé að standa með því fólki sem stendur virkilega illa á vinnumarkaði og ekki blasir annað við en iðjuleysi.