144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði af athygli á það sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sagði hér um vinnumarkaðsmálin og stöðuna í þeim efnum. Hv. þingmaður er formaður velferðarnefndar og þekkir til þessara mála. Ég er auðvitað sammála því og kemur kannski ekki á óvart að ég tel að í það heila tekið hafi tekist vel til í glímunni við atvinnuleysið á árunum eftir hrunið á síðasta kjörtímabili. Það var auðvitað mikið gert og er ástæða til að rifja upp hversu viðamikið það starf var og mikið samstarf við aðila vinnumarkaðarins, við sveitarfélögin, við skólana o.s.frv. Í fyrsta lagi var atvinnuleysisbótatíminn lengdur úr þremur árum í fjögur. Atvinnuleysisbætur voru eitt af því fáa sem aldrei var skert, þeim var haldið í fullum fjárhæðum. Það voru færðir umtalsverðir fjármunir yfir í skólakerfið, að hluta til úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Það voru keyrð virkniúrræði og ýmiss konar stuðningur við atvinnuleitendur, enda tóku menn því eðlilega ekki létt þegar 11–12 þúsund manns voru hér án atvinnu á útmánuðum 2009–2010 en síðan tók ástandið auðvitað að batna úr því og hefur gert það mjög mikið.

Ég vil spyrja hv. þingmann í ljósi þeirrar reynslu sem hann hefur eftir þessa glímu. Auðvitað var Vinnumálastofnun algerlega miðlæg í þessum slag og mæddi mikið á henni og umfang hennar jókst eðlilega talsvert. Nú ber svo við að það er dregið svo harkalega úr fjárveitingum til reksturs Vinnumálastofnunar að hún er að loka niður starfsemi á stórum svæðum í landinu. Hvernig sér hv. þingmaður þetta ganga upp í ljósi þess að það eru, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, því miður enn þá 5–6 þúsund manns á skrá?

Svo í öðru lagi og skylt því sem var rætt hér áðan eru það áhrifin á hópinn sem er þarna aftast á listanum og dettur þá út núna um áramótin. Hvernig er hann staddur? Hann er búinn að þrauka í að verða þrjú ár án atvinnu og er væntanlega, í ljósi reynslunnar, sá hópur sem við þurfum að hafa mestar áhyggjur af.