144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir svörin. Ég er auðvitað alveg sammála því, ég held að ef það er eitthvað sem mönnum ber alveg sérstök skylda til að gera við svona aðstæður, og alltaf á tímum atvinnuleysis, sé það að styðja við bakið á því fólki sem lendir í þessari hörmulegu stöðu og gera allt sem mögulegt er til að aðstoða á meðan og auðvelda því að komast út úr stöðunni. Ég hef aldrei skilið þær áhyggjur sem sumir hafa af því að það sé of lítill eða ekki nægur munur á atvinnuleysisbótum og lægstu launum. Mér finnst það liggja í því að einhverjir óski sér þess að vera í þessari stöðu og festast í henni til frambúðar, eins og það geti verið nokkurs manns vilji að eiga ekki kost á því að vinna sig upp og bæta kjör sín og aðstæður með vinnu.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann varðandi það, ef ég hef skilið þetta rétt, að þessi aðgerð eigi að skella á núna um áramótin og hún eigi að koma í einu höggi. Hvað eru áramótin? Það eru þeir mánuðir ársins þegar atvinnuástandið er erfiðast og langminnst svigrúm er til að leita sér að störfum. Það lagast svo með vorinu og sumrinu. Það mætti þá í fyrsta lagi spyrja: Væri þá ekki skömminni skárra að ýta þessum breytingum fram á vorið þannig að þetta kæmi þá frekar á þeim tíma ársins, og í öðru lagi að þetta gerðist ekki í einu höggi heldur tækju menn þá alla vega hálft ár ef ekki ár til að stytta þetta um einn og einn mánuð í senn þannig að breytingin gerist ekki eins og hún á að gerast nú um áramótin? Mér finnst hugmyndin mjög brútal og velti því fyrir mér hvort það hafi verið rætt a.m.k. við stjórnarliðið að breyta þá í öllu falli framkvæmdinni.

Vandinn er auðvitað sá að hér er ekki peningaleysið á ferð. Atvinnutryggingagjaldið dugar alveg til að halda atvinnuleysisbótatímabilinu áfram í þremur árum. Þetta er bókhaldsleg hagræðingaraðgerð eða aðhaldsaðgerð og kemur atvinnulífinu ekki til góða í þeim skilningi að atvinnutryggingagjaldið eigi að lækka sem þessu nemur.