144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Vegna þeirra orðaskipta sem hér voru rétt áðan og varða afgreiðslu vinnumarkaðsmálanna í þessu fjárlagafrumvarpi er kannski ágætt að klára það bara, eða ég geri það fyrir mitt leyti. Ég vil taka fram að ég er að sjálfsögðu algerlega andvígur styttingu bótatímans niður fyrir þrjú ár. Það er kostuleg röksemdafærsla að segja að vegna þess að atvinnuástandið hafi haldið áfram að lagast eigi að stytta tímann núna þegar haft er í huga að þrjú árin voru fest sem viðmið árið 2006 þegar hér var nánast ekkert atvinnuleysi og þótti þá einfaldlega hæfilegur tími.

Það er auðvitað alltaf umdeilanlegt hvað er skynsamlegt eða rétt að hafa slíkan tíma langan því að út af fyrir sig er engum greiði gerður og ekki gott að menn festist á mjög löngu atvinnuleysisbótaréttartímabili ef það væri hálfur áratugur eða heill áratugur eða eitthvað slíkt. Það þarf þá augljóslega að gera eitthvað annað, annars vegar að taka á ástandinu og hins vegar að aðstoða viðkomandi einstakling í því að endurhæfa sig o.s.frv.

Ég tel þessa útreið vinnumarkaðsmálanna algert hneyksli, ekki bara vegna þess að það er gert einhliða án samráðs við verkalýðshreyfinguna að stytta bótatímann heldur vegna þess að atvinnutryggingagjaldið er ekki lækkað. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir nefndi réttilega að þessir hlutir hefðu tekist í býsna góðu samstarfi að uppistöðu til á síðasta kjörtímabili, ég held að það verði bara að segja það. Þó að ýmislegt gengi nú á og stundum flygju ásakanir milli aðila var það, þegar upp er staðið, mjög farsælt samstarf fyrir samfélagið. Það var samstarf stjórnvalda, ríkisstjórnar, Alþingis, aðila vinnumarkaðarins, skólanna og sveitarfélaganna um mjög margt sem þessu tengdist.

Liður í því samkomulagi var að atvinnulífið tók möglunarlaust á sig hækkun atvinnutryggingagjaldsins eða tryggingagjaldið sem hækkaði að uppistöðu til vegna aukins atvinnuleysis. Þar hefur hins vegar núverandi ríkisstjórn algerlega snúið við blaðinu og er alveg augljóst mál að atvinnutryggingagjaldið sem slíkt og tryggingagjaldið þar með hefði getað lækkað umtalsvert meira en ríkisstjórnin hefur látið það gera. Það hefur aðeins verið 0,1 prósentustig á þessu ári og á að vera 0,1 prósentustig á hinu næsta, en hins vegar hefur um og yfir heilt prósentustig verið flutt úr fæðingarorlofshluta tryggingagjaldsins, úr atvinnutryggingahluta tryggingagjaldsins og úr þeim hluta tryggingagjalds sem ber kostnað af Ábyrgðasjóði launa yfir í almenna tryggingagjaldið. Núna kemur ríkisstjórnin og útfærir bókhaldslegt hagræðingarmarkmið eða aðhaldsmarkmið félagsmálaráðuneytisins þannig að dregið er úr kostnaði við greiðslu atvinnuleysisbóta með því að stytta tímann um sex mánuði án þess að lækka atvinnutryggingagjaldið. Að aðilar vinnumarkaðarins skuli láta bjóða sér þetta. Þeir gera það auðvitað ekki, ég veit það, þeir hafa mótmælt, en ég hefði viljað sjá kröftugri viðbrögð frá þeim og ekki síður frá atvinnurekendahliðinni því að mikið mega þeir nú telja þetta gróf svik á þeim anda sem unnið hefur verið í.

Ég minni aftur á hina hörmulegu útreið Vinnumálastofnunar. Mér finnst það algert hneyksli að þjarmað sé svona að henni nú þegar. Við erum þó ekki nema sex árum bak hruni. Hér er enn of mikið atvinnuleysi. Hér eru enn þúsundir manna sem verið hafa án atvinnu í eitt og tvö og jafnvel upp undir þrjú ár. Það þarf að halda utan um þann hóp og gera allt sem hægt er til að styðja við hann og er Vinnumálastofnun lykilaðili í þeim efnum. Hvers eiga menn að gjalda á þeim svæðum landsins, víða úti á landi? Vissulega er þar sem betur fer hlutfallslega minna atvinnuleysi en á höfuðborgarsvæðinu og sérstaklega á Suðurnesjum, en það er það samt … (Gripið fram í: Flytur í burtu.) Já, að einhverju leyti gerist það að fólk þá bara flytur í burtu. En það er bara algerlega óásættanlegt að Vinnumálastofnun skuli loka og leggja niður starfsemi á stórum svæðum eins og í Þingeyjarsýslum og ég skora á menn að gera betur í því núna við lokaafgreiðslu fjárlaganna. Þetta snýst ekkert um peninga, þetta hefur engin áhrif á stöðu ríkissjóðs. Það eina sem þetta snýst um er að Vinnumálastofnun fái rýmri fjárheimildir og hún hefur tekjustofninn til. Það má deila um það þó að til lengri tíma litið sé gott á tímum lágs atvinnuleysis að byggja upp sjóð, að eiga varasjóð eins og við áttum sem betur fer í hruninu. En erum við komin þangað núna að við ætlum að fara að mynda sjóðsöfnun hjá Atvinnuleysistryggingasjóði? Það verður afleiðingin af afgreiðslu frumvarpsins að kostnaður við greiðslu atvinnubóta verður minni en atvinnutryggingagjaldið mun gefa í tekjur og þá byrjar sjóðsöfnun. Mér finnst við nú býsna brött ef við teljum okkur hafa efni á því að hefja strax sjóðsöfnun í 3, 4–5% atvinnuleysi og ætlum að svelta þá stofnun sem halda á utan um þennan viðkvæma hóp á meðan.

Í öðru lagi var innt eftir því við 1. umr. hvort hæstv. fjármálaráðherra væri væntanlegur einhvern tíma undir umræðunni. Ég geri ekki neina kröfu um að hann sitji hér alltaf þó að það væri gott, en ég hef verið nokkuð þaulsetinn í þessari umræðu, ýmist sem þátttakandi í henni, í salnum eða á forsetastóli, en ég hef ekki séð hæstv. forsætisráðherra undir þessari umræðu. Mér finnst það miður því að ég tel að einhvern tíma undir lok hennar — og þau nálgast, við erum komin á síðari hluta 2. umr. — í 2. umr. um fjárlög sé hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hérna þannig að hægt sé að beina til hans spurningum. Ég hef gert það að honum fjarverandi eins og um Bankasýslu ríkisins og hvernig menn ætli að fara með það mál. Ég ætla ekki að sætta mig við það þegjandi og hljóðalaust að ekki fáist nein svör frá stjórnvöldum um það hvernig menn ætla að standa að málum hvað varðar það vandasama verkefni sem eignarhald ríkisins á bönkum og sparisjóðum er. Um er að ræða mjög stóra og fyrirferðarmikla eignarhluti eins og 98% í Landsbankanum, það munar nú um minna. Landsbankinn er með á þriðja hundrað milljarða í eigið fé, 7, 8 og upp í 12% í Arion og Íslandsbanka, eða hvað það nú er, og eignarhald í einum fjórum til fimm sparisjóðum sem voru upphaflega fimm að minnsta kosti, en eru kannski þrír eða fjórir núna eftir sameiningar. Þarna liggja mikil verðmæti hjá ríkinu og Bankasýslan fer með eignarhaldið. Það er stórt og mikilvægt verkefni.

Í öðru lagi var náttúrlega tilgangurinn með stofnun Bankasýslu ríkisins sá að tryggja armslengdarsjónarmið frá hinu pólitíska valdi og er kirfilega um það bundið í lögunum að ríkið sem eigandi fari réttar boðleiðir gagnvart bönkunum sem starfa eins og hver önnur fyrirtæki og eru á ábyrgð stjórnenda. Ríkið kemur að þessu á tvennan hátt; sem eigandi, þ.e. það felur Bankasýslunni að fara með eignarhaldið og mæta á hluthafafundi og það setur eigendastefnu sem bankar a.m.k. í meirihlutaeigu ríkisins eiga að fara eftir. Því til viðbótar er Bankasýslan að undirbúa og hefur verið að vinna tillögur um hagræðingu, til dæmis sameiningu sparisjóða og endurskipulagningu þeirra. Samkeppnisyfirvöld hafa tjáð sig með skýrum hætti í úrskurðum um að tilvist sparisjóðanna sé mikilvæg, jafnvel þótt markaðshlutdeild þeirra sé orðin mjög lítil þá sé ekki ásættanlegt út frá samkeppnissjónarmiðum að þeir séu gleyptir upp af stóru bönkunum. Nægir þá að vitna í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins varðandi áformaðan samruna Sparisjóðs Svarfdæla við Landsbankann sem eftirlitið lagðist gegn og gefur auðvitað vísbendingu um hver afstaða þess er í þessum efnum.

Ég tel þar af leiðandi og það er niðurstaða mín að það sé algerlega ótímabært að leggja Bankasýsluna niður. Ég sé ekki að fjármálaráðuneytið hafi undirbúið sig í reynd á nokkurn hátt undir það að taka allt í einu við þessum eignarhlut. Það er enn vandasamara í dag en það hefði ella verið vegna þess að fjármálaráðuneytið er jafnframt orðið ráðuneyti fjármálamarkaðarins og fer með eftirlit með fjármálamarkaðinum. Fer vel á því að þessir gríðarlega viðamiklu eignarhlutir í fjármálafyrirtækjum, minni hlutar og svo ráðandi hlutir algerlega í stærsta banka landsins plús sparisjóðirnir, sem eiga þá að keppa þarna á markaði, fari bara allir saman beint inn í fjármálaráðuneytið án nokkurra armslengdarsjónarmiða? Hvað þýðir það til dæmis ef lögin um Bankasýsluna falla niður og hætt verður að starfa samkvæmt þeim? Þá er engin fagleg stjórn yfir einhverju eignaapparati. Það eru engin ákvæði um valnefnd sem er í gildandi lögum sem tryggir það að fólk sem uppfyllir kröfur er valið af valnefnd og menn geta meira að segja boðið sig fram til setu í stjórnum og valnefndin tekur við tilnefningum og framboðum. Því yrði öllu hent, eins og ég skil það, ef menn ætla að líta svo á að Bankasýslan verði einfaldlega lögð niður og lögin um hana væru þar með úr sögunni. Það gengur ekki þannig að ég hefði viljað fá einhver svör frá hæstv. fjármálaráðherra um þetta mál sem og frá stjórnarmeirihlutanum. Ég tel eina vitið að tryggja fjárheimildir til reksturs Bankasýslunnar að minnsta kosti út næsta ár og fara ekki að grípa inn í ferlið eins og það er núna. Menn geta þá notað næsta ár til að velta fyrir sér framtíðinni, hvort eftir sem áður eigi einhvern tíma í fyllingu tímans að leggja Bankasýsluna niður eða kannski hvort nota eigi tækifærið og endurskipuleggja meðferð ríkisins á eignarhlutum, ekki bara í fjármálafyrirtækjum heldur jafnvel í fyrirtækjum sínum almennt. Ætti kannski að búa til eignarhaldseiningu, tengda fjármálaráðuneytinu að sjálfsögðu, en með ákveðnu sjálfstæði sem tryggði að tiltekin armslengdarsjónarmið væru virt? Mætti hugsa sér þar bæði eignarhaldið í stóru opinberu hlutafélögunum, jafnvel í fleiri slíkum hlutum og hugsanlega líka úrvinnslu eignasafns Seðlabankans og ríkissjóðs, þ.e. ESÍ, fyrirtækið sem heldur utan um gríðarlega miklar kröfur sem ríkið og Seðlabankinn sátu uppi með í kjölfar falls bankanna. Margir fleiri kostir gætu komið til greina í þessum efnum og þá væri synd að vera búinn að slátra Bankasýslunni ef menn kæmust svo kannski að þeirri niðurstöðu að hún eða eitthvað nýtt í hennar stað hefði getað tekið við þessu hlutverki.

Það hefði líka verið ástæða til að leggja spurningu fyrir hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra varðandi það sem við fréttum í efnahags- og viðskiptanefnd og er held ég ekkert leyndarmál, að ekki stæði til að framlengja niðurfellingu virðisaukaskatts af rafbílum og umhverfisvænum bílum sem nota umhverfisvæna orkugjafa. Ég skil ekki svona lagað. Samt er mér sagt að hæstv. forsætisráðherra hafi nýverið verið á einhverjum fundi eða ráðstefnu um umhverfisvænar samgöngur og hann hældi ríkisstjórn sinni í hástert fyrir það hvað hún væri græn í þessum efnum og hún ætlaði nú aldeilis að tryggja framþróun á þessu sviði. Næsta frétt: Nei, það yrði þá að hætta allt í einu fyrirvaralaust um áramót niðurfellingu virðisaukaskatts af rafmagnsbílum sem hefur sennilega verið aðalhvatinn til þess að sala þeirra hefur stóraukist núna á undanförnum einu, tveimur árum. Skráðir rafmagnsbílar á Íslandi eru núna að nálgast 500 þannig að þegar metan- og vetnisbílar eru lagðir við er þessi bílafloti sem er á umhverfisvænum orkugjöfum þó að þokast talsvert hátt á annað þúsundið. Hvers konar umhverfisstefna er þetta? Hvað er þarna eiginlega á ferðinni? Ekki verður nú tekjutapið mikið, það verða hvort sem er engir bílar af þessu tagi fluttir inn.

Sama gæti ég í raun sagt um átakið Allir vinna og 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu á byggingarstað eða vegna viðhalds og endurbóta á húsnæði. Ég held að allir séu sammála sem eitthvað til þekkja að það var mjög vel heppnað átak og skilaði miklum árangri, það var almenn ánægja með það, svo maður nefni nú eitthvað annað sem gott samstarf var um og allir voru sælir með. Sveitarfélögin tóku því auðvitað fagnandi því að húsnæði þeirra var fært undir þetta og þau sveitarfélög sem voru að reyna að leggja sitt af mörkum, til dæmis varðandi það að halda uppi einhverjum umsvifum í byggingargeiranum, áttu þarna hagkvæmt tækifæri til að viðhalda húsnæði sínu o.s.frv. og ríkið hjálpaði til í þeim efnum. Nú er okkur sagt og boðað að það verði afnumið á einu bretti í einu lagi, það er ekki einu sinni bara farið t.d. niður í 80% fyrst og kannski staldrað þar við í tvö ár og svo niður í 60%, nei, bara beint niður í 60% aftur og húsnæði sveitarfélaganna er fært út. Það tel ég mjög óskynsamlegt.

Ég hefði líka haft gaman af því að ræða hérna við stjórnarliða, það ættu kannski að vera meirihlutafulltrúarnir í fjárlaganefnd, um fréttirnar sem komu um ákvörðun meiri hluta fjárlaganefndar um það hvað hið opinbera hlutafélag Isavia eigi að greiða ríkissjóði í arð á næsta ári, algerlega að þeim fornspurðum, það kom flatt upp á stjórnarmenn í félaginu sem hafa þó með lögum það hlutverk að ákveða arðgreiðslur. Auðvitað er það þekkt að ríkið hefur stundum áætlað og sett inn í fjárlög áætlaðar tölur um arðgreiðslur til dæmis frá Landsvirkjun en þar sem ég þekki til hefur það ævinlega verið gert í samráði við stjórn fyrirtækisins og fyrirtækið og menn hafa haft góða vitneskju eða verið í góðri trú um að það væri niðurstaða sem stjórnin teldi sig geta staðið að. En ekkert slíkt var hér á ferðinni í tilviki Isavia. Það eru náttúrlega ekki samskiptahættir sem mér finnast boðlegir.

Nú er það að vísu þannig að þessar 500 millj. kr. á að nota í ákaflega þarft og brýnt verkefni sem er að setja fjármuni í uppbyggingu á innanlandsflugvallarkerfinu sem stendur engan veginn undir sér og ríkið þarf að byggja upp, enda eru þetta einfaldlega innviðir í samgöngukerfi okkar, algerlega bráðnauðsynlegir rétt eins og vegirnir og annað slíkt, og það er hið besta mál. En það er aðferðin sem ég set spurningarmerki við hér og ég hefði gaman af að heyra hæstv. fjármálaráðherra tjá sig um það mál. Hvernig fór þetta fram? Fór þetta fram hjá fjármálaráðuneytinu sem heldur á hlutabréfinu í Isavia? Er það virkilega rétt að meiri hluta fjárlaganefndar hérna hinum megin við Austurvöll detti allt í einu í hug á góðri kvöldstund: Já, heyrðu, við skulum láta Isavia borga 500 millj. kr. í arð á næsta ári. Meiri hlutinn talar ekki við fjármálaráðuneytið, hann talar ekki við stjórn félagsins. Það gengur ekki og að mínu mati er meiri hlutinn í fjárlaganefnd þarna kominn langt út fyrir sitt verksvið. Að sjálfsögðu gat meiri hlutinn grennslast fyrir um það, kallað forsvarsmenn félagsins í ráðuneytið, kallað stjórnarformanninn og stjórnarmenn á fund og spurt: Er það mögulegt að afkoma Isavia á næsta ári bjóði upp á að greiða ríkinu einhvern arð? Hvað gæti hann orðið mikill? o.s.frv. En þannig var víst ekki farið í þetta.

Að lokum verður svo auðvitað að hafa í huga að fjárfestingarþörf félagsins er gríðarleg. Ég verð alveg að segja eins og er sem fyrrverandi fjármálaráðherra að það hvarflaði aldrei að mér að Isavia yrði á næstu árum eitt af þeim félögum ríkisins sem gætu farið að greiða arð, vegna þess að maður horfir á verkefnin sem fram undan eru hjá félaginu sér maður að gríðarleg þörf er á uppbyggingu og fjárfestingum meðal annars til að mæta aukningu í ferðamannastraumi og annað í þeim dúr.

Virðulegi forseti. Að lokum, af því að okkur gefast að mínu mati of sjaldan tækifæri til að ræða efnahagsmálin í víðu samhengi, og fjárlagaumræða er auðvitað ágætistækifæri til þess, þá held ég að ég hljóti að gera eins og fleiri hafa reyndar gert hér í dag, að minnast á útkomu skýrslunnar frá OECD sem eru auðvitað alveg stórmerk tíðindi. Ja, öðruvísi mér áður brá í þeirri stofnun, það hefðu einhvern tíma þótt tíðindi hvernig bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Efnahags- og framfarastofnunin. OECD, eru á köflum farin að skrifa um efnahagsmál. Þessar stofnanir sem voru nú taldar þrælhægrisinnaðar og kapítalískar í allri sinni nálgun og voru það yfirleitt í ráðgjöf sinni og skýrslugerð. En nú ber svo við að OECD og AGS og fleiri eru farin að slá gjörbreytta tóna þegar kemur að félags- og efnahagssamhenginu, það sem stundum er kallað á erlendum málum „socioeconomics“, sem sagt pólitík, félags-, efnahagsvinkillinn í tilverunni. Í þessari stuttu skýrslu frá OECD, eða í útdrættinum sem er aðgengilegur á vefnum — síðan er þar mikið ítarefni og viðbótarlesefni — segir að það sé einfaldlega þannig að rannsóknir stofnunarinnar sýni að ef ójöfnuður aukist umtalsvert þá dragi úr hagvexti og öfugt, að jöfnuður í lífskjörum sé góður fyrir hagvöxt. Það er afar athyglisvert sem sagt er þar sem OECD vitnar í fyrri rannsóknir sínar og segir: Rannsóknir okkar, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, hafa sýnt með skýrum hætti að ávinningurinn af vexti og háum launum eða miklum auði þeirra sem best er settir í samfélaginu hríslast ekki niður með þeim hætti sem oft er haldið fram. Það segir OECD. Brauðmolakenningin er hrunin. OECD segir: Það er ekki þannig. Rannsóknir sýna að það er ekki sem það sem gerist, millistéttirnar og lægri tekjuhóparnir eru engu betur sett þó að auðmenn sópi meiri auði til sín. Ætti það nú að vera orðið nokkuð ljóst í Bandaríkjunum, er það ekki, þar sem auðurinn hefur safnast á færri og færri hendur allra efst á toppnum og bandaríska millistéttin býr við lakari kjör í dag en hún gerði fyrir 30 árum síðan. En svo bætir OECD við að það loki nú alveg hringnum þegar komi svo í ljós að auki að jöfnuður sé mjög mikilvæg forsenda hagvaxtar.

Hvað er þetta? Þetta er kjaftshögg. Þetta er í raun og veru rothögg á nýfrjálshyggjuna, á græðgiskapítalismann, á sjálfa hugmyndafræði hans. Samt heyrum við þann þvætting borinn á borð hér á Alþingi seint á því herrans ári 2014 eins og ekkert hafi gerst á Íslandi sem tengist þeirri hugmyndafræði. Það er með ólíkindum, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Ég hvet þá sem þannig ætla að tala eftirleiðis til að byrja á því að lesa þessa skýrslu OECD.