144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það megi efast mjög um að nú sé tímabært að selja þá hluti út frá því sjónarmiði að reyna að hámarka verðmæti eignarhluta ríkisins. Ég held til dæmis að í tilviki Landsbankans sé það augljóslega ekki svo. Að vísu hefur staðan þar breyst verulega eftir að samkomulag tókst um að lengja í bréfinu milli gamla og nýja bankans og eru margir bjartsýnir á að bankinn muni jafnvel í kjölfarið fá hækkað lánshæfismat og komast í sterkari stöðu og verða þar af leiðandi verðmætari. Ég tel frekar raunhæft að fengist gæti gott verð fyrir minnihlutaeignarhlutinn í hinum bönkunum í tengslum við hugsanlega sölu þeirra til einhverra framtíðareigenda.

Í tilviki sparisjóðanna held ég að það sé augljóst mál að ekki er runnin upp sú stund að ríkið geti farið að losa um þá eignarhluti. Ríkið verður þvert á móti að vera þolinmótt í þeim efnum og því ber skylda til að vera það vegna samkeppnissjónarmiða á markaðnum o.s.frv.

Hv. þingmaður nefnir eitt sem er eiginlega fréttir fyrir mig, ég verð að játa það, enda er ég ekki í fjárlaganefnd. Það kemur mér svolítið spánskt fyrir sjónir. Að vísu minnir þetta svolítið á æfingarnar með Seðlabankann og lækkun eigin fjárins þar, en þar er þó tekjufærsla á stærsta hluta niðurfærslu eigin fjárins. Ég fæ ekki betur séð en að ríkið hljóti að þurfa að tekjufæra hjá sér sölu ef verðmætið á þeim hlut sem seldur er er umfram bókfært nafnverð. Ég veit ekki hvernig menn ætla að standa að því öðruvísi. Að vísu má segja í tilviki Landsbankans að búið sé að tekjufæra þau 18% sem ríkið fékk til sín í fyrra án endurgjalds. Ef menn líta svo á að þeir muni endurráðstafa öllu söluverðmætinu í að greiða niður lán sem standa á ríkinu vegna fjármögnunar bankanna þá skil ég það, en ég hélt að ekki yrði hjá því komist að horfa á það að ef menn selja eitthvað á hærra verði en þeir hafa bókfært hjá sér þá eigi að tekjufæra mismuninn. Að vísu verða hugsanlega komin ný lög um opinber fjármál sem setja það að einhverju leyti í nýtt samhengi en ég held að það muni þó ekki breyta því.