144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, það er enginn vafi á því að verðið hefur staðið í mönnum enda hafa rafbílar verið dýrir, sérstaklega þeir sem stærri eru og langdrægari og hafa getað keppt við venjulega bíla eða bíla á venjulegum orkugjöfum. Þar af leiðandi hefur það skipt verulega miklu máli að virðisaukaskatturinn var felldur niður, að vísu upp að vissu þaki, ef ég man rétt. Ég botna ekkert í því hvert ríkisstjórnin er að fara í þessum efnum vegna þess að ég hef heyrt haft eftir ráðamönnum hennar annars staðar, úti í bæ, að þeir segist allir vera af vilja gerðir hvað þetta varðar.

Það er alveg rétt, þetta var eitt af mörgu sem hrint var í framkvæmd á síðasta kjörtímabili og gerði skattumhverfi umferðarinnar mun grænna. Sem betur fer stendur nú margt eftir af því, eins og að andlag ýmissa gjalda; tolla, aðflutningsgjalda og bifreiðagjalda; er núna CO2-losun en ekki gamla kerfið. Skattumhverfið í umferðinni er því grænna enda veitir ekki af því að það er alveg ljóst að í tilviki Íslands eru möguleikar okkar til þess að (Forseti hringir.) leggja eitthvað umtalsvert af mörkum í sambandi við loftslagsmálin mjög bundnir við orkuskipti í samgöngum, þeir liggja þar. (Forseti hringir.) Þar getum við náð árangri en ekki svo mikið á öðrum sviðum. (Gripið fram í.)