144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:53]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög góða ræðu. Það er þrennt sem mig langar að spyrja hann út í. Í fyrsta lagi leiddi efnahagshrunið af sér gríðarlegar efnahagslegar byrðar og á síðasta kjörtímabili, eða eiginlega á þarsíðasta kjörtímabili þegar Geir H. Haarde var forsætisráðherra, var farið út í rannsóknir á orsökum bankahrunsins. Það væri ekki forsvaranlegt að þetta dyndi yfir okkur án þess að íbúar landsins fengju skýringar á hvað hefði misfarist. Gerðar hafa verið nokkrar rannsóknir, þ.e. á hruni bankanna, á sparisjóðunum, lífeyrissjóðunum og Íbúðalánasjóði. Einni er ólokið, rannsókn um einkavæðingu bankanna. Núverandi meiri hluti gerir mikið úr kostnaði við þessar rannsóknarnefndir. Ég er sammála því að hann er umtalsverður og kannski er ástæða til að setja skýrari ramma utan um það, en í stóra samhenginu er hann brotabrotabrot af kostnaðinum sem leiddi af hruninu. Sérstakur saksóknari hefur meðal annars á grundvelli þessara rannsókna, en jafnframt þar fyrir utan, rannsakað mál og sent svo til ákæruvaldsins brot sem tengjast hruninu.

Nú er í fjárlagafrumvarpinu boðað að hætta eigi starfsemi embættisins í lok næsta árs. Núverandi stjórnarmeirihluti telur nóg komið af rannsóknum held ég yfirleitt, hvort sem það eru rannsóknir á dapurlegri stjórnsýslu eða rannsóknir á efnahagsbrotum. Það hefur í raun verið mjög lítið talað um að leggja eigi niður þetta embætti, of snemma miðað við mat þeirra (Forseti hringir.) sem til þekkja, þó að þeir sem brotlegir eru séu náttúrlega ánægðir. Hvert er viðhorf þingmannsins til þessa?