144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé einfaldlega þannig að við séum búin að fjárfesta það mikið í þeim málum sem við getum kallað úrvinnslu á hruninu að við eigum að klára þau. Þetta eru meðal annars rannsóknirnar, svo sem starf rannsóknarnefndar Alþingis og könnun á einstökum stórum málaflokkum þar sem hlutir fóru úrskeiðis eins og varðandi sparisjóðina, í framhaldi af bönkunum, og Íbúðalánasjóð. Lífeyrissjóðirnir stóðu reyndar sjálfir fyrir ákveðinni úttekt hjá sér sem menn veltu fyrir sér hvort ætti að fylgja eftir með beinni rannsókn af hálfu Alþingis. Síðan liggur fyrir samþykkt ákvörðun um að fara næst í að skoða einkavæðinguna á bönkunum, sem allir eru nú sammála um og var niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að hafi verið stærsta einstaka undirrót ófarnaðarins, það hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna á sínum tíma. Mér skilst að komin sé út bók í landinu þar sem kaupandinn að öðrum bankanum fari ekki dult með þá skoðun sína að hann telji að þarna hafi verið staðið hroðalega illa að málum og gott ef ég þóttist ekki sjá það einhvers staðar að hann lét hafa eftir sér að hann sæi eftir því að hafa ekki labbað í burtu þegar hann sá hvernig vinnubrögðin voru í kringum einkavæðingu bankanna.

Ég held að núverandi stjórnvöld megi passa sig á þjóðinni ef þau ætla fyrir opnum tjöldum að kippa fótunum undan starfi sérstaks saksóknara þannig að ekki sé hægt að fylgja eftir og klára til enda fyrir dómstólunum þau gríðarlegu mál sem þar er búið að undirbúa og er nú farið að reyna á. Alltaf var vitað að þau tækju langan tíma og mundu kosta peninga en við erum komin mjög langt í því ferli og við eigum auðvitað að klára það. Það verður að ljúka úrvinnslumálunum sem tengjast atburðunum sem hér urðu. Þeir eru enn á mörgum sviðum, t.d. efnahagslegir eins og gjaldeyrishöftin, en það eru líka þættir af þessu tagi. Við eigum að klára þetta og loka svo þessum kafla og koma honum aftur fyrir okkur þannig að við séum búin með hann og getum farið að horfa fram á veginn.