144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er enginn vafi á því að starfið við skattrannsóknir á síðasta kjörtímabili skilaði miklum árangri og ýmsar breytingar sem gerðar voru á löggjöfinni. Þar má til dæmis tiltaka að við innleiddum svokallaðar CFC-reglur um samstæðusköttun íslenskra móðurfélaga og dótturfélaga erlendis sem hefðu betur verið komnar fyrir hrun, á útrásarárunum þegar flúið var í skattaskjólin. Það voru ýmis göt í löggjöfinni af því tagi sem við reyndum að stoppa upp í. Það sem vantar enn upp á er að lögfesta reglur um þunna eiginfjármögnun. Átakið Allir vinna var náttúrlega öðrum þræði hugsað í skattalegum tilgangi og það skilaði miklu, sem og heimsóknirnar á vinnustaðina í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Það má hrósa þeim fyrir virka þátttöku í því. En mér sýnist þetta allt vera að dofna núna hjá þeim. Eina jákvæða fréttin er sú að fjármálaráðherra ætlar ekki að leggjast gegn því að skattrannsóknarstjóri kaupi gögn um skattaskjól ef hann metur svo og gerir það eiginlega upp á eigin áhættu, þ.e. ávinningurinn af gagnakaupunum á að standa undir kostnaðinum. (Forseti hringir.) Ég tók líka eftir því að í sömu andrá var talað um mögulega sakaruppgjöf til handa þeim sem kæmu sjálfviljugir heim, sem er umdeilanlegt.