144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég tel að alla vega tekjuöflunarmöguleikarnir séu fyrir hendi. Tekjurnar voru það en núverandi ríkisstjórn hefur því miður afsalað ríkissjóði verulega háum fjárhæðum með því að stórlækka veiðigjöld, fella niður auðlegðarskatt, lækka tekjuskatt á miðþrepi og fara núna í breytingar á vörugjöldum og virðisaukaskatti, sem eru ávísun á nettótekjutap ríkisins upp á 6–8 milljarða o.s.frv. Ég gæti nefnt fleira sem mér telst til að sé á fjórða tug milljarða króna í tekjur. Nú er ég ekki að segja að það hefði algerlega skilað sér allt og ég er ekki að segja að menn hefðu ekki mátt gera einhverjar af þessum breytingum, t.d. endurskoða auðlegðarskattinn og jafnvel milda hann, en ég fullyrði að ríkið gæti auðveldlega án þess að það væri ósanngjarnt verið með 20–25 milljarða í viðbót í tekjur. Þá væri að sjálfsögðu ekki vandamál að mæta þörf sem er óuppfyllt þrátt fyrir viðleitni núna upp á 2 milljarða kr. eða svo. Ég kemst að svipaðri niðurstöðu og hv. þingmaður með það. Ég held að svona 2 milljarðar í viðbót í heilbrigðiskerfið mundu gera gæfumuninn.

Það er eitt sem er mjög alvarlegt í þessari umræðu. Stjórnarliðar tala mikið um að með hækkuninni núna til Landspítalans fái hann sambærilegt ef ekki meira fjármagn en hann hafi nokkru sinni áður fengið á föstu verðlagi, en þjóðinni hefur fjölgað síðan og við erum að verða eldri og ný tækni er alltaf að koma til sögunnar. Þegar ég skoða þetta sem hlutfall af vergri landsframleiðslu þá bregður mér í brún vegna þess að ég fæ ekki betur séð en það hlutfall hafi heldur verið að lækka, einnig núna í ár og muni gera það á næsta ári. Landsframleiðslan er þó að tosast það upp að ef heilbrigðismálin héldu sínum hlut, sínum hundraðshluta af landsframleiðslunni, þá værum við að setja meiri peninga í þau. Þetta er hlutfall sem allir höfðu reiknað með að mundi fara hækkandi eins og það hefur gert í flestum öðrum þróuðum ríkjum. En Ísland sker sig (Forseti hringir.) svolítið úr, að því er mér virðist, hvað þetta varðar. Við höldum varla í horfinu útgjöldum til (Forseti hringir.) heilbrigðismála sem hlutfalli af landsframleiðslu.