144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að vísu að við ættum að fara aðeins varlega áður en við reiknum okkur í mjög háar fjárhæðir í tekjum þó að við breyttum þessu með til dæmis laxveiðihlunnindi eða leigutekjur því að ef þetta er fært inn í virðisaukaskattskerfið kemur innskattur auðvitað til frádráttar á móti sem ekki er til staðar í dag, þannig að tekjuaukinn nettó verður stundum minni en menn halda, sérstaklega ef þetta færi í neðra þrep. Stóra spurningin er, held ég, hvort þetta á ekki að skoðast sem aðrar leigutekjur og í raun og veru flokkast þá sem fjármunatekjur og að greiða eigi af því fjármagnstekjuskatt. Það er annar kostur sem ég tel að komi fyllilega til greina. Kannski með einhverju hlutfalli svipað og á við til dæmis um tekjur manna af leigu íbúðarhúsnæðis þar sem 70% teknanna teljast til stofns við greiðslu fjármagnstekjuskatts. Hvort á að meðhöndla þetta sem leigu eða sölu á þjónustu, sambærilegt við sölu á þjónustu eða vöru, eða meira eins og fjármunaleigu eða leigutekjur af hlunnindum, fjármunum og skattleggjast sem (Forseti hringir.) fjármagnstekjuskattur, það er skoðunaratriði. En ég slæ þann varnagla að við mundum held ég ekki fara langt með vanda heilbrigðiskerfisins með tekjuauka af þessu þó að farið (Forseti hringir.) væri út í þetta vegna þess að hann yrði minni en margir halda þegar horft er á brúttótölurnar.