144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Honum verður tíðrætt um heilbrigðismálin og Landspítalann og þau mál brenna vissulega á okkur núna. Hv. þingmaður hefur kynnt hugmyndir sínar um að leggja virðisaukaskatt á laxveiðileyfi, eins og ég skil hann, (JPÓ: … afnema undanþáguna.) afnema undanþáguna af laxveiðileyfum. Mér finnst það mjög umhugsunarvert. Ég hef nefnt hér í ræðustól að láta skoða hvað varðar leigu af aflamarki innan ársins á kvóta og sölu á kvóta og er að láta kanna fyrir mig hvort það gæti fallið undir slíkt. Þar væru á ferðinni miklu hærri upphæðir en skattstofninn er varðandi þessi leyfi í laxveiði. Allt þetta þarf að skoða og sjá hvernig það fellur að skattkerfinu miðað við aðra þætti.

Mig langar að bera undir hv. þingmann það hlaðborð af tekjum sem ríkisstjórnin hefur afsalað sér og spyrja hvar hv. þingmaður mundi bera niður ef hann væri í ríkisstjórn núna þegar ríkið hefur afsalað sér veiðigjöldum upp á fleiri milljarða, aðeins verða innheimtir 7,5 milljarðar en þetta hefðu verið kannski 16 milljarðar ef framhald hefði verið á lögum um veiðigjöld. Og svo er auðlegðarskatturinn felldur niður á einu bretti, 10 milljarðar, svo eitthvað sé nefnt. Orkuskattur fellur niður eftir eitt ár, 1,5 milljarðar. Svo mætti lengi telja. Fleira væri hægt að nefna. Hvar mundi hv. þingmaður bera niður til að styrkja heilbrigðiskerfið?