144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:20]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég mundi klárlega taka meiri auðlindarentu. Ég get ekki réttlætt að auðlindir sem eru sjálfsprottnar séu annað en í almannaeigu. Ástæðan er sú að það sem mér finnst réttlátt þegar kemur að séreign, þegar kemur að einkaeign, er að þú hafir blandað erfiði þínu við hana. Þetta er gömul og gild hugsun. Ég get þar af leiðandi ekki réttlætt það að sjálfsprottin auðlind geti verið séreign. Ef einhver fer út í það að byggja eldisstöð og vera með eldisfisk á hann að sjálfsögðu þann fisk, en fiskurinn í sjónum á sig sjálfur, eins og einhver af sægreifunum nefndi nýlega, það var mjög áhugavert. Fiskurinn á sig sjálfur, þar af leiðandi er hann sameign okkar allra. Ef einhver vill fá heimild til þess að takmarka aðgöngu annarra að auðlindinni, sem þarf að gera á einhverjum forsendum, sama hvort það er kvóti eða sóknardagar eða hvað, það þarf að gera til að tryggja sjálfbærni, þá verður hann að borga þeim sem eiga hana og hann á að borga þeim sanngjarnt gjald.

Við getum ekki horft fram hjá því að sjávarútvegurinn fékk hvalreka, bæði í formi lægri íslenskrar krónu og í formi miklu meiri afla upp á síðkastið. Að sjálfsögðu á að skilast meira og við sjáum það líka á hagnaðartölunum að það er miklu meira sem hægt er að skila. Hvernig er hægt að ná því fram? Það ætti að sjálfsögðu að setja markaðsverð, þannig að menn mundu þurfa að borga markaðsverð ef þeir ætla að fara út að fiska. Og hvers vegna markaðsverð? Þetta er markaðsverð á leyfi til þess að koma í veg fyrir að aðrir geta farið að fiska og þá borgar þú það markaðsverð til almennings sem á þessa auðlind sameiginlega.