144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég get líka nefnt tekjur sem ríkið er að afsala sér þessa dagana og það er til dæmis breyting á vörugjöldum og virðisaukaskatti. Þetta er tekjutap upp á 6–7 milljarða varðandi afnám vörugjaldsins og breytingu á virðisaukaskattsþrepum, á hærra og lægra þrepinu, og lækkun á tekjuskatti á miðþrepið í almenna tekjuskattskerfinu, það eru 5 milljarðar. Svo að mörg er matarholan ef menn mundu vilja nýta sér það í þágu heilbrigðiskerfisins, og ég veit að hv. þingmaður ber hag þess fyrir brjósti eins og ég og fleiri.

Aðeins varðandi aukna kostnaðarþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu. Nú kemur fram að aukin kostnaðarþátttaka er mjög mikil og sameiginlegar tillögur Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata til breytinga á fjárlögum hljóða upp á að hækka þessar greiðslur almennings eða koma til móts við þær í gegnum almannatryggingar upp á 1,9 milljarða en lagt er til að þessar hækkanir verði dregnar til baka.

Hvað telur hv. þingmaður að það þýði fyrir ríkissjóð? Er þessum peningum vel varið við að koma til móts við almenning í landinu á þennan hátt? Hvernig sér hann fyrir sér að ríkisvaldið ætti núna að stíga inn í þær erfiðu kjaraviðræður sem eru í gangi, en ríkisvaldið virðist einhvern veginn kaupa sér fjarvistarsönnun þegar um hana er rætt?