144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:25]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Varðandi síðustu spurninguna um það hvað ríkisstjórnin ætti að gera varðandi samninga við lækna og hvað Alþingi ætti að gera varðandi fjárheimildir til þess að koma til móts við þá mundi ég segja að ríkisstjórn og Alþingi eigi að stíga niður fæti og segja: Við ætlum að forgangsraða, við ætlum að gefa læknum sérmeðferð, við ætlum að forgangsraða í heilbrigðiskerfið. Ég er alveg viss um að landsmenn mundu standa með stjórnvöldum, með slíkri ákvörðun. Þessi ríkisstjórn hefur sýnt það að hún er tilbúin að gera óvinsæla hluti eins og að setja lögbann eða lög á verkföll, það var mjög óvinsælt að gera það. Ég spyr mig þá: Hvers vegna getur hún þá ekki stigið niður fæti og tekið ákvörðun með forgangsröðun í heilbrigðiskerfið? Því að það sem hún er að gera núna er ekki nóg og læknar eru í verkfalli í fyrsta skipti í sögunni. Ég er viss um að það yrði mjög vinsælt. Nú er sagt: Já, en þá kvarta aðilar vinnumarkaðarins yfir því að aðrir verði að fá hækkun líka o.s.frv. Við erum að tala um sérfræðinga. Samtökum atvinnulífsins virðist finnast það allt í lagi og nauðsynlegt, út frá til að mynda því að menn verða að geta ráðið til sín bestu starfsmennina, þegar kemur að hækkun yfirmanna, stjórnendum fyrirtækja sem fá tugprósenta hækkanir. En það er akkúrat þannig með sérfræðingana okkar, með læknana, það eru sérfræðingar sem eru á samkeppnismarkaði og við erum að missa þá úr landi, þeir koma ekki til baka. Það kemur mjög skýrt fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, í sáttmála ríkisstjórnarinnar að, með leyfi forseta:

„Íslenskt heilbrigðiskerfi verður að vera samkeppnisfært við nágrannalönd …“