144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er tvennt sem mig langar að ræða, í fyrra andsvarinu um virðisaukaskattinn og í því síðara um heilbrigðiskerfið.

Þingmaðurinn skýrði frá tillögu sem hann vill flytja varðandi breytingar á virðisaukaskatti þannig að afnumin verði undanþága gagnvart veiðileyfum í laxveiði og slíku. Almennt langar mig að segja þetta um virðisaukaskattsbreytingarnar núna: Ég er náttúrlega alfarið á móti hækkun matarskattsins, en óháð því hvað manni kann að þykja um þessar breytingar finnst mér vanta ítarlega vinnu og greiningu á íslenska virðisaukaskattskerfinu. Nú er boðað að það eigi að verða eitt þrep að lokum, það á að verða 14% matarskattur árið 2016, byrjað er í bitum að hrella fólk, svo á það ekki að taka eftir því þegar fram vindur. En ekki er farið yfir það, eitthvað er verið að gera breytingar en undanþágurnar eru ekki skoðaðar mjög gagnrýnum augum. Og hér hefur hv. þingmaður bent mjög vel á að þarna er verið að selja þjónustu sem er sala á veiðileyfum og hún er undanþegin virðisaukaskatti án nokkurrar augljósrar ástæðu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji þær breytingar sem verið er að gera á virðisaukaskattskerfinu í sérstöku frumvarpi samhliða fjárlagafrumvarpinu nógu vel ígrundaðar og hvort honum finnist þau vinnubrögð sem þar eru viðhöfð benda til þess að verið sé að auka skilvirkni kerfisins eða bæta það með einhverjum hætti.