144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:31]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeirri tillögu og vona að þingmaðurinn fái sem flesta meðflutningsmenn á hana. Þó að undanþágur í skattkerfi séu eðlilegar, það er mjög eðlilegt að undanþága sé á sumri tegund þjónustu og vöru, þarf það að vera vel rökstutt og það þarf að vera í samhengi við annað inni í kerfinu.

Nú hefur hv. þm. Jón Þór Ólafsson verið mikill talsmaður heilbrigðiskerfisins og hefur fjallað um fjárskort í því kerfi og þörfina á að setja meiri fjármuni þar inn. Ég gæti ekki verið meira sammála hv. þingmanni. Læknaverkfallið er svo alvarlegt að undarlegt er að stjórnvöld taki ekki miklu fastar á málum því að verkfallið mun grafa undan heilbrigðiskerfinu til lengri tíma litið. Það eru sífellt fleiri læknar að boða uppsagnir og skaðinn verður bæði við það að missa lækna en ekki síður í þeirri uppsöfnuðu þörf sem skapast á meðan verkfallið stendur.

Hv. þingmaður hefur farið yfir þá fjármuni sem vantar inn í kerfið til að hægt sé að sinna þeirri þjónustu sem það á að sinna. En þá er annað, ekki er nóg með að þá fjármuni vanti heldur ber verkfallið í sér kostnað. Ég sá fyrirspurn frá þingmanni, ég man ekki hverjum akkúrat þessa stundina, varðandi uppsafnaðan kostnað bara á Landspítalanum. Nú þegar er hann orðinn um 400 millj. kr. Sér þingmaðurinn að stjórnarmeirihlutinn sé (Forseti hringir.) meðvitaður um þann kostnað? Telur hann að líklegt sé að bæta eigi heilbrigðisstofnunum landsins (Forseti hringir.) það upp?