144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, það tókst við síðustu fjárlög að koma í veg fyrir að sjúklingaskattar yrðu lagðir á við innlagnir á sjúkrahús.

Almenningi er oft talin trú um að skattar séu af hinu vonda og að það sé mikið keppikefli að berjast fyrir því að lækka skatta. Ég hef alltaf talað fyrir því að með sköttum séum við í raun og veru að borga okkur sjálfum, tryggja gott velferðarkerfi, heilbrigðiskerfi, samgöngur og innviði samfélagsins, en með því að veikja skattstofna séum við að kalla yfir okkur nákvæmlega það sem hv. þingmaður kom inn á, aukna kostnaðarþátttöku í öllu mögulegu. Þannig vilja hægri menn hafa hlutina, veikja tekjustofnana. Brauðmolakenningin er þar auðvitað, að það hrynji alltaf eitthvað niður sem nýtist öllum af háborði allsnægtanna hjá þeim sem hafa það betra og þeir þurfi því að borga minni skatta og geti þannig nýtt peningana í eitthvað sem mundi valda því að tekjur dreifðust um þjóðfélagið.

Veruleikinn hefur verið sá að þegar löndum er þannig stjórnað, eins og var hérna í 18 ár áður en hrunið varð, þá hefur það komið fram í gífurlega aukinni kostnaðarþátttöku í öllu mögulegu. Þannig hefur byrðunum verið beinlínis velt yfir á fólkið, neytendur, með ýmsum hætti. Þannig virðist mér þróunin vera hér núna. Menn (Forseti hringir.) fara á fullri ferð í þetta aftur, hvort sem það er í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu eða ýmsu öðru.