144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, við Íslendingar erum kannski svolítið öðruvísi en margar þjóðir vegna þess að við höfum alist upp við það að vera svo miklir þátttakendur í atvinnulífinu, sem öðrum þjóðum býðst ekkert endilega. Þar er þetta niðurnjörvað en hér hafa margir, þó að það hafi eitthvað breyst í seinni tíð, fengið að taka þátt í almennu atvinnulífi mjög snemma, allur gangur á því auðvitað, og haft gagn og gott af því og lært að vinna.

Þegar þroskinn hefur orðið meiri hefur fólk kannski ákveðið, eftir að hafa hætt formlegri skólagöngu, að afla sér menntunar og viljað vera áfram í sinni heimabyggð, vegna þess að þar er stuðningskerfið, fjölskyldan, en hefur þá ekki haft möguleika á því. Fólk er kannski komið með börn og hefur þá getað fengið aðstoð stórfjölskyldunnar við að stunda nám í sinni heimabyggð. Það hefði verið allt of mikil breyting á högum og kostnaður ef fólk hefði þurft að rífa sig upp með rótum með fjölskylduna og hefði eiginlega verið ákvörðun um að fara alfarið.

Með fjarnámi og öflugum framhaldsskólum, sem hafa boðið upp á það að 25 ára og eldri hafa getað farið í nám aftur, bóknám, þá hefur þetta verið hægt og hefur verið mikill styrkur fyrir þessi byggðarlög. Þessir framhaldsskólar vítt og breitt um landið hafa verið að auka námsframboð sitt gífurlega og það hefur styrkt þessi byggðarlög á allan hátt. Þess vegna tel ég þetta vera gífurlega afturför og ég lýsi furðu minni á landsbyggðarþingmönnum sem standa að þessari breytingu án þess að hiksta og vita hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir umræddar byggðir.