144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr um áhættumat fyrir ferðamennsku og það er nú svo að það mál er enn í nefnd og hefur að mínu mati ekki fengið nógu hraðan framgang. Ég tel þetta mál vera mjög brýnt og það var í vinnslu, þessi hugsun að gera þetta áhættumat, milli aðila á síðasta kjörtímabili. Ég veit að hjá Landsbjörg var það mikið keppikefli að fá þetta greint, að áhættumat yrði gert hér innan lands, vegna mikils fjölda ferðamanna.

Ferðamannastraumurinn er auðvitað að aukast mikið um allt land, ekki bara í þéttbýli heldur á hálendinu og alls staðar um landið. Það er því mjög mikilvægt að þetta sé greint. Miðað við að þingmenn úr öllum flokkum eru á málinu vona ég að það fái framgang að lokum. Þá er það spurningin, allt kostar þetta peninga. En ég held að þetta sé það brýnt mál að ég vona að þeir finnist, þó að þeir séu ekki í þessu frumvarpi.

En varðandi Ríkisútvarpið þá er ég mjög hrædd um að þessi mikli niðurskurður muni gjörbreyta hlutverki Ríkisútvarpsins. Það voru væntingar um að nú ætti að fara að spýta í lófana varðandi uppbyggingu á landsbyggðinni hjá Ríkisútvarpinu — það er mjög brýnt, það þurfti að skera þar niður á síðasta kjörtímabili og menn höfðu væntingar um að nú yrði bætt í.

Varðandi hlutverk Ríkisútvarpsins sem menningarstofnunar og öflugs fréttamiðils og lýðræðisvettvangs þá er það stórhættulegt fyrir okkur sem þjóð ef við ætlum að veikja svo þessa sameiginlegu stofnun okkar þannig að hún verði ekki svipur hjá sjón.

Ég skora á alla að sýna stofnuninni samstöðu og ég veit að hollvinir Ríkisútvarpsins boða til samstöðu hér á Austurvelli á morgun.