144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:03]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er alveg ljóst að þessi niðurskurður Ríkisútvarpsins er svo mikill að það verður ekki einföld rekstrarhagræðing eða eitthvað svoleiðis sem svarar þeim kostnaði enda fengum við þingmenn bréf um þetta frá stjórn Ríkisútvarpsins. Hún er pólitískt skipuð og þar sitja fulltrúar allra flokka ef svo má að orði komast. Stjórnin telur einfaldlega að ef þetta verður skorið niður eins og ætlunin er geti Ríkisútvarpið undir hennar stjórn ekki sinnt sínu lögbundna hlutverki. Þá hlýtur það náttúrlega að vera þannig að ef þetta á að gerast þarf að breyta lögum um Ríkisútvarpið og það gerum við í þessum sal. Það væri nauðsynlegt að ræða það hér. Þetta er alveg hreint af sama toga og annað sem ég minntist á. Það eru engir fjármunir til Bankasýslunnar og þetta er allt tekið í einhverjum dagskipunarstíl sem mér hugnast ekki.