144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:05]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, þá er það umræða sem við þyrftum að taka í þessum sal og ættum í rauninni að gera áður en niðurskurðurinn er samþykktur eða við verðum þá væntanlega að fara í það eftir áramót ef breyta þarf lögum.

Svo er annað sem maður veltir fyrir sér, vilji þjóðarinnar í þessu máli. Við erum fulltrúar þjóðarinnar og hljótum að einhverju leyti að endurspegla vilja hennar. Kannanir sýna að fólk vill hafa öflugt ríkisútvarp, ég hef skilið það þannig, og því veltir maður fyrir sér hvaða hagsmunir séu að baki ríkisstjórninni, hvort þetta snúist um að menn lofuðu skattalækkunum og verða einhvern veginn að framfylgja því loforði eða hvort skattgreiðendum almennt finnist þessi þúsundkall, sem þeir mundu þá greiða aukalega á næsta ári og mundi tryggja afkomu RÚV, skipta fólk máli. Ég hef upplifað það að fólk vilji hafa öflugt ríkisútvarp og sé tilbúið að borga þennan skatt, þó að við gerum að sjálfsögðu alltaf þá kröfu á Ríkisútvarpið eins og alla aðra að þar sé ekki verið að bruðla, menn reyni að hagræða eins og þeir geta og þar fram eftir götunum.

Ég spyr hvort hv. þingmaður sé sammála mér um þá tilfinningu að þjóðin sé almennt sátt við að hafa öflugt ríkisútvarp og tilbúin að leggja sitt af mörkum í nefskatti sem dugar fyrir rekstrinum.