144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:15]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Fyrst að menntamálunum og spurningunni um 25 ára regluna, eða óregluna, og fangana. Ég verð að segja alveg eins og er að ég held að það væri mjög erfitt að gera undanþágu, nema það verði ákveðið með sérstakri fjárveitingu eða að ákveðið verði að hlífa þessum hópi fólks við lokuninni á framhaldsskólann. Mér finnst það bara sýna eitt, hvað þetta er afskaplega óskynsamleg ráðstöfun í alla staði, gagnvart öllum og ekki síst föngum í þessu samhengi.

Hvað varðar Þróunarsamvinnustofnun ætla ég að segja það hreint út að mér finnst það arfavitlaus hugmynd að ætla að flytja hana í ráðuneytið. Ég held að það mundi breyta eðli starfsins, eðli stofnunarinnar. Mér skilst líka að það sé talað um það til dæmis að þetta yrði hluti af utanríkisþjónustunni. Ég átti vin sem var aðmíráll í belgíska hernum og hann sagði að þeir hefðu alltaf verið í hvítum fötum þegar þeir voru í Suðurlöndum og það hefði verið alveg gasalega gaman. Mér skilst að þá verði búin til þarna nokkur sendiráð þar sem sendiherrar geta klæðst hvítum fötum.