144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera athugasemd við prýðisgóða fundarstjórn forseta. En ég ætla að vekja athygli á því að við ræðum fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015. Fjármálaráðherra hefur ekki sést hér í salnum við þessa umræðu og það sem verra er þá sjást formaður og varaformaður fjárlaganefndar ekki heldur.

Hér var til dæmis verið að ræða 600–900 millj. kr. niðurskurð á Ríkisútvarpinu. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur krafist þess að Ríkisútvarpið biðji hann afsökunar út af einhverjum túlkunum og hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, hefur lýst því yfir að hún sé óánægð með fréttastofu RÚV sem sé bæði vinstri sinnuð og höll undir ESB.

Þetta fólk, sem hefur verið í þessu opinbera stríði við Ríkisútvarpið og er nú að skera það niður, fólk sem fer inn í ákvarðanir stjórnar sjálfstæðs félags í eigu ríkisins — það er óeðlilegt að það sé ekki hér til andsvara í þessari umræðu.