144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu en vil jafnframt benda á að það var fyrirspurnatími með ráðherrum í dag þar sem ansi margir ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru komnir í þinghúsið og þá hefði kannski verið hægt að klára eitthvað af þeim spurningum sem þingmenn telja sig vera með til ráðherranna. Eins og hv. þingmenn vita er málið núna í 2. umr. Hún hefur náð því að verða önnur lengsta fjárlagaumræða frá því að mælingar hófust, er mér sagt. Málið er einfaldlega hjá þinginu og það er þingmanna að ræða um það og koma með breytingartillögur. Þannig er staðan í dag.

Ég ætla svo sem ekki að fara að tala um hvað er búið að ræða þetta hér lengi en hv. þingmenn vita hvernig stendur á því. Það eru fjölmörg mál eftir og ég held að við værum vel sæmd af því að fara að ljúka þessa umræðu, sérstaklega vegna þess að samkvæmt starfsáætlun þingsins á þingi að ljúka á föstudaginn. Ég stend þó vaktina meðan þingmenn biðja.