144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:31]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mér finnst rétt að það komi fram að óundirbúnar fyrirspurnir eru allt annað en umræða um fjárlagafrumvarpið. Þó að menn sjái sig tilknúna að nýta þann lið til að fá svör við ýmsum spurningum getur hver flokkur í rauninni spurt einnar spurningar og aðeins einn ráðherra. Það er frekar ófullkomið.

Mér þykir ekki gott að við í stjórnarandstöðunni séum mest að tala hvert við annað en þúsundir spurninga vakna við lestur fjárlagafrumvarpsins og það kemur mér á óvart sem þingmanni hvað það er erfitt að fá svör við þeim. Mér líður stundum eins og ég væri í betri aðstöðu ef ég væri blaðamaður, kannski röggsamur blaðamaður sem hefði góðan sjónvarpsþátt eða eitthvað þar sem ég gæti raunverulega stillt ráðherrunum að einhverju leyti upp við vegg. Svörin sem við fáum í þingsal eru oft mjög ófullnægjandi. Í óundirbúnum fyrirspurnum á ráðherrann alltaf síðasta orðið og það eru fá tækifæri til að spyrja þannig að mér finnst skortur á því. Ég mundi gjarnan vilja sjá meiri hlutann (Forseti hringir.) virkari í þessum umræðum.