144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:55]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu eins og hennar er von og vísa. Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann út í þróunaraðstoð, þann málaflokk, sem ég held að hún þekki betur en ég, ég veit að hún hefur áhuga á því. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir hækkun sem neinu nemur. Hér er lítils háttar hækkun til þróunarsamvinnustofnana og þróunarmála og almennra framlaga til alþjóðlegra stofnana. Við erum í 0,22% hlutfalli af vergum þjóðartekjum þegar við skoðum hvað við gefum mikið. Það er oftast sá mælikvarði sem er notaður til að bera okkur saman við aðrar þjóðir, förum úr 0,24% árið 2013 í 0,22% árið 2014 og við erum þar áfram árið 2015. Mig langar að vita hvað hv. þingmanni finnst um þetta.

Þegar við skoðum styrktarsamningana sem eru til Þróunarsamvinnustofnunar út af hinum og þessum málefnum þá er smáhækkun í ár en svo aftur lækkun 2016. Hér inni eru nú reyndar samningar eins og markaðssetning og kynning á íslenskum matvælum erlendis, sem kom, ef ég man rétt, inn á milli umræðna í fyrra. Við höfum í mörg herrans ár eða áratugi markaðssett — gott ef þetta er ekki lambakjötið okkar, til Bandaríkjanna. Þetta er hér inni. En hér eru annars hefðbundin mál sem snúa að mannúðar- og þróunarhjálp, en sem sagt lítil hækkun ef þá einhver, og við höldumst í þessum 0,22%. Hvað finnst hv. þingmanni um það?