144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir þessa spurningu. Ég kom ekki inn á þróunarsamvinnu í ræðu minni áðan en vék hins vegar talsvert að henni í fyrri ræðu minni hér við 2. umr. fjárlagafrumvarpsins. Hvað mér finnist um að við ætlum ekki að setja nema 0,22% í þróunarsamvinnu má með skýrustum hætti segja: Mér finnst það óskaplega döpur pólitísk skilaboð sem við sendum með því. Þar sem við erum meðal ríkustu þjóða heims tel ég að okkur beri siðferðisleg skylda til að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum fólks í allra fátækustu ríkjum heimsins.

Þetta er ekki bara dapurlegt í hinu stóra alheimssamhengi heldur er þetta líka dapurlegt ef við tökum þetta bara út frá okkar litla þrönga íslenska samhengi þar sem þetta er ekki í samræmi við samþykkta þingsályktunartillögu um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands á árunum 2013–2016. Ef við ætluðum að fylgja henni ætti framlag Íslands að vera 0,35% á næsta ári en ekki 0,22%. Hvort sem er litið er til hins þrönga íslenska samhengis eða hins stóra alheimssamhengis þá finnst mér það óskaplega dapurlegt að við skulum ekki ætla að gera betur í þessum málum.