144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir þessa mjög svo mikilvægu spurningu því að S-merktu lyfin eru gríðarstórt og mikilvægt mál sem, líkt og hv. þingmaður kom inn á, snertir ekki aðeins sjúklinginn heldur einnig ríkið og hreinlega heilbrigðiskerfið okkar, hvernig það er. Nú ætla ég að reyna að útskýra í stuttu máli hvernig ég sé þetta.

Það er nokkuð ljóst að ríkissjóður ætlar að spara sér þarna 305 millj. kr. þannig að einhver á að borga þá upphæð og ég er hrædd um að það séu einmitt sjúklingar. Þetta er ekki bara eitthvert panódíl sem við erum að tala um hér heldur erum við að tala um sérstök sjúkrahúslyf. Þetta eru lyf sem oft eru gefin við mjög alvarlegum sjúkdómum svo að fólk hefur í raun ekkert val um það hvort það vill taka þau eða ekki. Ég er hrædd um að hér eigi einmitt að velta kostnaðinum yfir á sjúklinga og mér finnst það eitt og sér vera stórt áhyggjuefni.

Svo er það tæknilega hliðin. Annars vegar mun þetta verða dýrara vegna þess að fleiri milliaðilar, ef ég skil þetta rétt, koma að þessu. En svo hreinlega vegna þess hvaða áhrif þessi boðaða breyting mun hafa á það hvernig lyfjum er vísað, vegna þess að það eru bara sum S-merkt lyf sem eiga að fara inn í greiðsluþátttökukerfið en önnur ekki. Sum þessara lyfja er hægt að gefa inni á sjúkrastofnunum og önnur ekki. En þar sem tími minn er búinn þarf ég kannski að fá bara í síðara andsvari (Forseti hringir.) mínu að ræða þetta nánar og ég vil það mjög gjarnan því að þetta er (Forseti hringir.) stórt og mikið mál.